Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 15:49:02 (3683)

1999-02-16 15:49:02# 123. lþ. 66.41 fundur 83. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., MagnM
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[15:49]

Magnús Árni Magnússon:

Hæstv. forseti. Vissulega eru miklar hörmungar í Írak og skelfilegt að horfa til þess lands og hugsa til þess sem sú þjóð hefur þurft að þola að undanförnu. Þessi tillaga er án efa mjög vel meint en því miður að mínu mati misráðin.

Það velkist enginn í vafa um að afleiðingar þeirrar ógnarstjórnar sem verið hefur í Írak eru skelfilegar. Ég tel að allt of mikil einföldun sé að skella skuldinni á viðskiptabannið eitt og sér. Það má auðvitað deila um réttmæti slíkra aðgerða, aðgerða á borð við viðskiptabann, sem hv. flm. þessarar tillögu viðurkenndi að hefðu í sumum tilfellum borið árangur þó að í öðrum tilfellum, eins og t.d. í tilfelli Kúbu, hafi viðskiptabannið dagað uppi og í raun orðið hlægilegt í ljósi tímans og sögunnar. Það er vart tími til að fara í djúpar umræður um réttmæti viðskiptabanna hér en þetta virðist vera útleið lýðræðisríkja þegar þau eiga í átökum við þjóðir, að í stað þess að fara í bein átök hefur þetta orðið úrræði sem menn hafa gripið til, og eins og sagt var áðan er ástæða til að taka umræðu um réttmæti slíkra aðgerða.

Ef hins vegar greinar Jóhönnu Kristjónsdóttur sem fylgja hér með, áhrifamiklar og vel skrifaðar, eru lesnar grannt sést að þarna er við ótrúlega aðila að eiga í Írak. Einræðisherrann situr þarna á valdastóli og eyðir gríðarlegum peningum í mannvirkjagerð sjálfum sér til dýrðar, peningum sem allir menn með réttu ráði mundu nota til að lina þjáningar þjóðar sinnar. Það eru vísbendingar og sannanir fyrir því að stjórnvöld í Írak hafa þvælst fyrir hjálparstarfi alþjóðlegra stofnana á borð við Rauða krossinn og Rauða hálfmánann í Írak. Á meðan þeir byggja hallir og brýr sér til dýrðar og endurreisa hina svífandi garða Babýlons leyfa þeir þjóð sinni að deyja úr hungri og vosbúð. Saddam Hussein og stjórn hans gera einnig sitt ýtrasta til að koma sér upp gereyðingarvopnum og hefur hann margoft verið staðinn að þeirri ætlan sinni, gereyðingarvopnum sem stjórnvöldum þar er trúandi til að beita gegn nágrönnum sínum. Þeir hafa sýnt í verki að þeir hika ekki við að beita vopnavaldi gegn nágrönnum sínum og eru margar hryllingssögur til af framferði þeirra í innrásinni í Kúveit, gegn nágrönnum sínum og Ísrael og jafnvel Vesturlöndum.

Með því að samþykkja tillögu sem þessa erum við að bregðast við nákvæmlega eins og þessi hryllilegi einræðisherra vill að við gerum. Hann leyfir þjóð sinni að þjást til þess að fólk á Vesturlöndum loki augunum fyrir grimmd hans sjálfs og fari að kenna sjálfu sér um það sem þarna er að gerast, en ég tel að það sé töluverður viðsnúningur á málum. Einnig má velta því fyrir sér hvaða heimspekilega stefnu menn eigi að taka í beitingu slíkra aðgerða eins og efnahagslegra refsiaðgerða eða viðskiptabanna, hvort þeim eigi einungis að beita gegn þeim sem augljóslega eru ekki nógu geðveikir til að láta slíkt bann bitna á börnum og konum. Ég lýsi þeirri skoðun minni hér að ég tel að Saddam Hussein og stjórn hans beri fulla ábyrgð á þeim hörmungum sem eru í Írak og dynja á írökskum borgurum.