Framkvæmd 12. gr. jafnréttislaga

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 14:28:45 (3735)

1999-02-17 14:28:45# 123. lþ. 68.3 fundur 413. mál: #A framkvæmd 12. gr. jafnréttislaga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[14:28]

Fyrirspyrjandi (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Herra forseti. Haustið 1997 viðurkenndi hæstv. menntmrh. opinberlega að hafa brotið 12. gr. jafnréttislaganna þegar hann bað bréflega um tilnefningar í Rannsóknarráð Íslands og skipaði síðan níu karla og tvær konur í ráðið.

Umrædd lagagrein hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka skulu, þar sem því verður við komið, sitja sem næst jafnmargar konur og karlar og skal ávallt á það minnt þegar óskað er tilnefningar í hlutaðeigandi stjórnir, nefndir og ráð.``

Í framhaldi af því flutti ég fyrirspurn í þinginu um það hve oft einstakir ráðherrar hefðu minnt á umrædda lagagrein. Í svari á þskj. 244 frá síðasta þingi kom fram að yfirleitt hafa ráðherrar ekki minnt á þessa lagagrein, með fáum undantekningum þó, einkum frá félmrh., sem minnti 173 sinnum á greinina, en umhvrn. 12 sínnum og iðn.- og viðskrn. 21 sinni.

[14:30]

Í utandagskrárumræðu í nóvember 1997 viðurkenndi hæstv. forsrh. að þetta ákvæði jafnréttislaga væri almennt ekki notað, þ.e. að lögin væru brotin almennt af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, en af þessu tilefni yrði það áréttað við ráðuneytin að þetta ákvæði væri til staðar og bæri að virða eins og önnur lagaákvæði. Í sömu utandagskrárumræðu kom fram hjá hæstv. félmrh. að hann hefði sent ráðuneytunum bréf til að minna á 12. gr. jafnréttislaganna og væri tilbúinn að árétta bréflega áður en langt um liði.

Af þessu tilefni spyr ég hæstv. forsrh. á þskj. 686:

,,1. Hefur verið áréttað við ráðuneytin að virða beri ákvæði í 12. gr. jafnréttislaganna eins og frekast er unnt, sbr. ummæli forsætisráðherra og félagsmálaráðherra á 122. löggjafarþingi?

2. Ef svo er, hvenær var það gert formlega og hversu oft hlutfallslega hefur verið vitnað í 12. gr. jafnréttislaganna í þeim tilnefningarbréfum sem farið hafa frá ráðuneytunum síðan?``