Framkvæmd 12. gr. jafnréttislaga

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 14:34:50 (3737)

1999-02-17 14:34:50# 123. lþ. 68.3 fundur 413. mál: #A framkvæmd 12. gr. jafnréttislaga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[14:34]

Fyrirspyrjandi (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin þótt ég verði að segja að það sé alveg með ólíkindum að heyra það enn einu sinni frá þessari ríkisstjórn að ekki er staðið við jafnréttislögin og ekki einu sinni við eigin orð, héðan úr þessum stóli. Um að málið verði áréttað við ráðuneytin, þ.e. hér var lagabrot viðurkennt fyrir tveimur árum síðan og lofað bót og betrun en síðan er allt svikið. Því er þess varla að vænta, herra forseti, að hlutfall í nefndum hafi neitt lagast frá því sem það var fyrir tveimur árum, en ekki fjórum, þ.e. 1997 en þá var hlutfall kvenna í nefndum á vegum þessarar ríkisstjórnar 23%.

Ég fagna því hins vegar að í nýju frv. til jafnréttislaga er þessi grein styrkt eins og glöggt kom fram í máli hæstv. ráðherra, samanber 21. gr. þess frv.

Herra forseti. Fyrirspurnir mínar í þinginu um 12. gr. jafnréttislaganna sýna skýrt að flestir ef ekki allir ráðherrar þessarar ríkisstjórnar hafa brotið jafnréttislögin. Í gær var hér til umræðu niðurstaða kærunefndar jafnréttismála um að úthlutun bifreiðastyrkja hjá Landsbankanum og Búnaðarbankanum færi í bága við jafnréttislög, en enginn ráðherra var til svara um það hvort eitthvað gerðist í framhaldi af þeim úrskurði. Því vil ég nú nota tækifærið og spyrja hæstv. forsrh. hvort viðkomandi ráðherrar --- og þá er ég að tala um 12. gr. jafnréttislaganna --- eða bankastjórar verði látnir sæta ábyrgð vegna lagabrotanna og í hverju sú ábyrgð felist, samanber 22. gr. jafnréttislaga þar sem segir að sá sem brýtur lögin sé skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum. Ef það er ekki ljóst, má spyrja til hvers þessi ákvæði jafnréttislaga eru eiginlega og því miður verður ekki séð að nýja frv. til jafnréttislaga taki á þessum veikleikum laganna. Að sjálfsögðu er þetta fyrst og síðast spurning um pólitískan vilja og pólitískar áherslur sem því miður skortir hjá núverandi ríkisstjórn. Ég leyfi mér, herra forseti, að efast um að sama skeytingarleysi (Forseti hringir.) væri viðhaft ef um væri að ræða aðra lagabálka, t.d. samkeppnislögin.