Réttarstaða fólks í hjúskap og óvígðri sambúð

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 14:53:54 (3744)

1999-02-17 14:53:54# 123. lþ. 68.6 fundur 372. mál: #A réttarstaða fólks í hjúskap og óvígðri sambúð# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[14:53]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í dómsmrn. er unnið að samningu sérstakra upplýsingarita, annars vegar um réttaráhrif hjúskapar og hins vegar um réttarstöðu karls og konu í óvígðri sambúð. Í ritinu um réttarstöðu karls og konu í óvígðri sambúð verður, auk ítarlegrar umfjöllunar um réttarstöðu þeirra meðan sambúðin varir, fjallað um réttarstöðu þeirra við slit á sambúð og við andlát sambúðarmaka. Gerð er grein fyrir réttarstöðu karls og konu í óvígðri sambúð að því er varðar almannatryggingar, börn, eignarrétt, fjármál, forræði eigna, framfærslu og framfærsluskyldu, leigu á húsnæði, skatta og greiðslur úr ríkissjóði, skuldaábyrgð og ýmis önnur réttindi.

Í ritinu um réttaráhrif hjúskapar verður fjallað um hjúskaparstofnun, hjónaskilnað og réttarstöðu eftirlifandi maka við andlát hans, auk þess sem skýrð verða réttaráhrif hjúskapar með tilliti til barna, fjármála hjóna, forræði maka á eign sinni, framfærsluskyldu og skuldaábyrgðar.

Drög að þessum ritum liggja nú fyrir og verða þau gefin út þegar þau hafa verið fullunnin. Upplýsingaritin munu liggja frammi í ráðuneytinu og hjá sýslumannsembættum. Enn fremur er gert ráð fyrir að ritunum verði dreift til fleiri stofnana þar sem líkur eru á að fólk leiti eftir upplýsingum um þessi málefni, svo sem Hagstofu Íslands, Fjölskylduþjónustu kirkjunnar, Tryggingastofnunar ríkisins og almenningsbókasafna. Enn fremur munu ritin verða birt á heimasíðu ráðuneytisins.