Skipun hæstaréttardómara

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 15:01:04 (3748)

1999-02-17 15:01:04# 123. lþ. 68.7 fundur 426. mál: #A skipun hæstaréttardómara# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[15:01]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Fyrst með tilliti til fyrirspurnarinnar eins og hún liggur fyrir er rétt að minna á að frv. hv. þm. var vísað til ríkisstjórnarinnar. Eins og áður hefur komið fram í þessum fyrirspurnartíma felst í slíkri afgreiðslu af hálfu þingsins að þingið tekur ekki afstöðu til slíks máls og telur ekki ástæðu til þess. En frá því að Alþingi fjallaði um það mál hefur ríkisstjórnin lagt fyrir þingið frv. að dómstólalögum, frv. sem síðar var samþykkt í þinginu og hefur tekið gildi. Það fékk hér venjulega umfjöllun og var þó nokkuð rætt. Engar hugmyndir komu fram í þeirri umfjöllun um að gera breytingar á skipun hæstaréttardómara. Þingið hefur því fyrir sitt leyti svarað þessum spurningum mjög skýrt og afgerandi í ítarlegum umræðum.

Síðari liður fyrirspurnarinnar, sem ekki er á þingskjalinu og hv. þm. vék að, laut að því hvort nýlega genginn dómur Hæstaréttar kynni að breyta viðhorfum manna í þessu efni. Mitt mat er að sá dómur feli ekki í sér neinar þær vísbendingar eða neina þá stefnubreytingu í dómum Hæstaréttar að gefið sé tilefni til að breyta skipun hæstaréttardómara. Vissulega kann svo að fara og heilmiklar umræður eru um það hvort dómstólar eigi að taka sér löggjafarvald. Ég hef varað við því þótt dómstólar þurfi auðvitað að túlka lög og á vissan hátt að taka þátt í réttarþróun, þá tel ég að löggjafarvaldið eigi að vera hjá þjóðkjörnum fulltrúum og menn verði að vera mjög á varðbergi fyrir því að það fari ekki úr höndum Alþingis. Alþingi er einn af hornsteinum og einn meginhornsteinn ríkisvaldsins og þess vegna mikilvægt að viðhalda því jafnvægi. Það hefur ekkert gerst í þessum efnum að mínu mati sem kallar á að gerð verði breyting á skipun hæstaréttardómara.