Réttur íbúa landsbyggðar til læknisþjónustu

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 19:38:24 (3817)

1999-02-17 19:38:24# 123. lþ. 68.19 fundur 277. mál: #A réttur íbúa landsbyggðar til læknisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[19:38]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Sams konar fyrirspurn lá hér fyrir fyrir hálfum mánuði síðan frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og ég svaraði honum þá og endurtek eiginlega svör mín því að spurningin er nákvæmlega sú sama.

Spurt er hvort unnið sé að því í ráðuneytinu að jafna kostnað landsbyggðarfólks sem sækja þarf sérfræðiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

Svarið við því er já. Tryggingaráð hefur komið með tillögur til heilbrrn. og þrjár vikur eru síðan tryggingaráð sendir þær tillögur inn. Við erum að vinna með þessar tillögur núna og alveg á næstu dögum verður skrifað undir nýja reglugerð sem er ívilnandi.

En ég vil geta þess líka í þessu sambandi að við höfum verið að vinna að því að bæta sérfræðiþjónustu um land allt og styrkja stofnanir til þess að auka sérfræðiþjónustu svo landsbyggðarfólk þyrfti í minna mæli að leita suður. En auðvitað verður það alltaf svo að menn þurfa að leita langt til að fá læknisþjónustu, og þessar tillögur sem tryggingaráð hefur lagt fyrir heilbrrn. eru ívilnandi. Ég vona að það svari fyrirspurn hv. þm.