Starfsmannavandi sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 19:42:46 (3820)

1999-02-17 19:42:46# 123. lþ. 68.21 fundur 330. mál: #A starfsmannavandi sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., MagnM
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[19:42]

Magnús Árni Magnússon:

Hæstv. forseti. Ég flyt fyrirspurn á þskj. 408 frá Þórunni H. Sveinbjörnsdóttur til hæstv. heilbrrh. um stafsmannavanda sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu.

Fyrirspurnin er svohljóðandi:

,,1. Hvernig hyggst ráðherra bregðast við því að 30 starfsmenn vantar í ræstingar á Sjúkrahúsi Reykjavíkur?

2. Verður hægt að halda uppi starfsemi eldhúss Landspítala þó að tæplega 10 stöðugildi séu ómönnuð?

3. Hyggst ráðherra láta gera úttekt á vanda stóru sjúkrahúsanna sem stafar af gífurlegum mannabreytingum?``

Samkvæmt heimildum mínum voru á tíu mánuðum á síðasta ári ráðnir 136 starfsmenn í eldhús Landspítalans en 140 hættu. Það er greinilega mikill viðsnúningur á fólki þarna. Eldhús Landspítalans hefur átt við starfsmannavanda að stríða síðustu fjögur ár eða lengur. Það er dýrt að endurhæfa alltaf nýja og nýja starfsmenn og síþjálfa. Og þrátt fyrir að laun hafi eitthvað hækkað þá virðist það ekki hafa dugað. Það er gríðarlega mikið álag þarna og heyrst hefur að fólk verði jafnvel veikt af álagi, þetta er jú eitt stærsta eldhús landsins. Það hefur komið fram að hátt í 400 starfsmenn vantar í allt í heilbrigðisgeiranum á höfuðborgarsvæðinu. Því verður fróðlegt að heyra svar hæstv. heilbrrh. við þessari fyrirspurn.