Jafnréttislög

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 15:23:07 (3892)

1999-02-18 15:23:07# 123. lþ. 69.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., SF
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[15:23]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Það hefur komið fram að tiltölulega hægt gengur í jafnréttismálunum og það er rétt. Við erum hér að fjalla um mjög metnaðarfullt skjal, frv. til nýrra jafnréttislaga, sem ég bind persónulega mjög miklar vonir við og vona að þetta frv. ýti okkur fram á veginn. En það hefur gengið tiltölulega hægt. Ég hef verið að vinna upp á síðkastið ásamt öðrum að framgangi kvenna í stjórnmálum og manni finnst að andinn sé sá að konum sé að fjölga, það sé jákvæð þróun í þá átt en þegar það er skoðað nánar er staðan eitthvað heldur daprari varðandi fjöldann.

Ef við álítum að niðurstaða næstu kosninga verði svipuð og við síðustu kosningar fyrir tæplega fjórum árum og skoðum hlutfallið sem kemur út miðað við hvernig hefur raðast upp á lista að undanförnu, þá blasir það við að einungis mun fjölga um eina konu ef við miðum við stöðuna eins og hún er í dag. Að vísu hafa konur komið inn á þingið í stað karlkyns þingmanna sem hafa orðið ýmist ráðherrar eða sendiherrar, (Gripið fram í: Og forstjórar.) já, eða forstjórar. Við erum því með ákveðna stöðu í dag, en eins og staðan er núna miðað við hvernig raðast hefur upp á listann er ljóst að hjá samfylkingunni mun fækka um eina konu að mér sýnist þar sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir fellur niður í 3. sæti á listanum þar. Hjá Sjálfstfl. mun trúlega fjölga um tvær konur, Valgerði Gunnarsdóttur og Drífu Hjartardóttur, þ.e. ef úrslit kosninga verða eins og síðast. Hjá Framsfl. er sama staða og síðast, þ.e. þrjár konur í þinginu. En það sem er jákvætt er að konurnar hafa færst ofar á listunum og það er hin jákvæða þróun en heildarfjöldinn verður plús ein kona ef niðurstaða kosninga verður eins, en það er alls ekki víst að svo fari. En mig langaði að draga þetta fram til að sýna að þróunin er tiltölulega hæg.

Í þessu skjali kemur fram að sérhvert ráðuneyti á að skipa jafnréttisfulltrúa. Mér finnst það mjög áhugavert. Þetta er í anda samþættingar þar sem menn eiga að reyna að koma jafnréttismálunum að á öllum stigum í stjórnsýslunni og í samfélaginu en ekki hafa þau afmörkuð. Jafnréttismálin skipta alls staðar máli. Það á líka að stokka upp stjórnsýsluna varðandi skrifstofu jafnréttismála. Hún á að verða meiri stofnun og tengjast ráðherranum sterkari böndum en í dag og á að taka á sig þau verk sem Jafnréttisráð hefur haft. Mér sýnist að meiri pólitísk ábyrgð verði því hjá ráðherranum á málaflokknum og stofnuninni í kjölfarið. Mér finnst framkvæmdarvaldið vera að taka þarna meiri ábyrgð á sig en ábyrgðin fari frá hagsmunasamtökunum sem voru í Jafnréttisráði áður. Mér finnst þetta jákvætt. Ég hef alltaf undrað mig á því hvernig Jafnréttisráð er skipað og hefði talið miklu æskilegra að það yrði skipað pólitískum fulltrúum en það er ekki þannig í dag. Það er fjölskipað ráð og ég held að þar hafi ekki verið nógu góð skipan mála þannig að ég tel þetta jákvætt skref.

Hið nýja Jafnréttisráð á að vera vettvangur hagsmunasamtaka og þeirra sem vilja leggja sitt af mörkum í þessum málaflokki og er svona grasrótaruppbygging. Þetta er mjög spennandi samspil sem ég sé fyrir mér í hinu nýja stjórnskipulagi. Síðan á jafnréttisþingið að fjalla um tillögu Jafnréttisráðs til ráðherra um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Það finnst mér líka mjög jákvætt skref.

Það eru einnig nýmæli varðandi úrskurðarnefnd jafnréttismála og mér finnst það jákvætt hvernig á að taka á þeim málum. Mér er kunnugt um að Danir sem fylgjast með lagaumhverfinu og löggjöfinni hér líta mjög til þess hvernig því er komið fyrir í frv. með úrskurðarnefndina. Einnig eru nýmæli með fyrirtæki eða stofnanir þar sem fleiri en 25 manns starfa, að þeim sé skylt að gera jafnréttisáætlanir sem taki ,,m.a. til launa og almennra starfskjara``, eins og þar stendur. Mig langar því að nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hvað sé hægt að túlka þetta vítt, þar sem hér hljóta að vera ríkisstofnanir og fyrirtæki undir. Í kjölfar þess að ég spurði á sínum tíma hæstv. menntmrh. um Ríkisútvarpið og sjónvarpið er ljóst, eins og kom fram í skýrslu frá hæstv. félmrh. að hlutur kvenna í fréttum var einungis 18%, sem er mjög lágt hlutfall, en karla 82%, þ.e. hlutur kvenviðmælenda fréttastofanna var svona lágur. Þess vegna spurði ég hæstv. menntmrh. hvort hann hefði áhuga á að gera átak í gegnum ríkisfjölmiðlana til að reyna að leiðrétta þetta. Það kom ekki fram neinn vilji til þess á þeim tíma. Hæstv. ráðherra vísaði þá í að þetta væri innri málefni Ríkisútvarpsins og sjónvarpsins og ríkisvaldið ætti ekkert að koma að því, sem ég er reyndar algerlega ósammála. Ég vil benda á að Alþingi hefur gripið í innra starf ýmissa samtaka og ekkert vílað það fyrir sér, m.a. hæstv. félmrh. Mér finnst því eðlilegt að fá svar við því hvort hægt sé að túlka þetta ákvæði sem svo að sjónvarpinu verði gert skylt að gera jafnréttisáætlun sem feli það m.a. í sér að auka hlut kvenna til jafns við karla sem viðmælenda fréttastofanna. Að sjálfsögðu blandast inn í þetta fréttamat og fréttastofur þurfa auðvitað að taka viðtöl við þá sem hafa eitthvað fréttnæmt að segja, en það skal enginn segja mér að konur séu einungis 18% fréttnæmar, ef svo er hægt að segja. Það væri því ágætt ef hæstv. ráðherra gæti svarað þessu hér.

Ákvæði eru um að samræma eigi fjölskyldu og atvinnulíf, reyna að gera allt til þess. Þetta er mjög mikilvægt og er í anda fjölskylduráðsins sem tilheyrir undir hæstv. félmrh. einnig, enda er alveg ljóst að kröfur sem eru gerðar til fjölskyldna í dag og þá sérstaklega til kvennanna þar sem þær bera því miður enn þá meiri ábyrgð á fjölskyldum en karlarnir, að kröfurnar eru afar miklar. Konur og karlar tala í auknum mæli um ofurkonurnar sem eigi að geta allt. Þær eiga að geta verið á vinnumarkaðnum, berjast þar til frama og áhrifa, þær eiga að sjálfsögðu að fá hátt kaup fyrir vinnuframlag sitt og þær eiga einnig að sjá um heimili og börn og vera góðar eiginkonur og allt þetta. (Gripið fram í.) Það eru miklar kröfur sem gerðar eru til kvenna.

Hér er líka ákvæði um rannsóknir í kynjafræðum sem ég fagna. Það er alveg ljóst að rannsóknir eru mjög mikilvægar þar sem þær sýna okkur í hvaða átt þróunin er og þær tengjast að vissu leyti sérstöku ákvæði sem er í frv. um greiningu tölfræðilegra upplýsinga eftir kynjum. Það þykir mér vera mjög jákvætt atriði vegna þess að jafnréttisumræðan hefur oft verið mjög tilfinningaþrungin og sumir hafa ekki viljað trúa því að konur og karlar fái t.d. ekki sömu laun. Sumir trúa því bara einfaldlega ekki og telja að það sé rangt. Þá er ekkert annað hægt að gera en sýna tölur. Tölurnar ljúga ekki þannig að mér finnst þetta mjög framsækið ákvæði.

Það er einnig talað um að reyna eigi að jafna hlut kynjanna í nefndum, stjórnum og ráðum. Þetta er ákvæði sem á að endurskoða eftir tíu ár. Ég tel að það sé talsverð bjartsýni. Ég er ekki viss um að jafnræði verði orðið eftir tíu ár.

Ég vil að lokum taka það fram að mér finnst mjög æskilegt að við náum þessu máli í gegn á þessu þingi. Ég vona að þverpólitísk samstaða sé um það og mér finnst umræðan hafa endurspeglað það svolítið og ég vona að félmn. takist að afgreiða málið. Ég veit að hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, formanni félmn., sem mun leiða það starf er mikið í mun að klára það. Ég held að það væri mjög skemmtilegt fyrir viðkomandi þingkonu að geta lokið sínum ágæta ferli í þinginu með því að bera ábyrgð á að þetta mál komist í gegnum félmn. og í gegnum þingið. Mér skilst einnig að þýða eigi þetta frv. á ensku og verið sé að huga að því í ráðuneytinu m.a. vegna þess að nágrannaríki okkar, t.d. Danir og fleiri, eru að bíða eftir að fá að sjá frv. og hafa frétt af því og telja þetta vera svo framsækið, nýtt og glæsilegt að þeir vilja fá að sjá það sem fyrst og þá á tungumáli sem þeir skilja. Mér skilst því að þýða eigi þetta á ensku.

Mig langar að lokum að segja frá því að fyrir stuttu síðan fékk ég tækifæri ásamt hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni að fara til Kaliningrad, sem er rússnekst hérað norðan Póllands og sunnan Litháens. Þar hittum við ,,lókaldúmuna`` eða héraðsþingið þar sem voru 32 þingmenn og þar af fjórar konur. Við spurðum aðeins út í stöðu kvenna í þessu þingi og hún var ekki nógu góð, þær voru fáar. En þær fylltust eldmóði þegar við fórum að spyrja um hag þeirra og báðu okkur um að senda sér íslensku jafnréttislögin á ensku. Mér finnst mjög gott framtak að þýða eigi frv. á ensku og vona að hægt verði að senda það þá m.a. til þessara kvenna í Kaliningrad í þinginu þar sem þær hafa mjög mikinn áhuga á þessum málum.