Svör við fyrirspurnum

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 10:47:34 (3901)

1999-02-19 10:47:34# 123. lþ. 70.97 fundur 278#B svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[10:47]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Í svari hæstv. fjmrh. við fyrirspurn minni kemur fram að rúmum þremur milljörðum kr., 3.264 millj. kr., hafi verið varið á einu ári til aðkeyptrar ráðgjafarþjónustu fyrir ríkið í heild sinni. Síðan er neitað að sundurgreina þessa fjárhæð. Í fyrirspurn minni er sérstaklega spurt um tiltekið fyrirtæki, VSÓ-verkfræðiþjónustuna. Það er nokkuð sem ég eða Alþingi mun eiga við hæstv. fjmrh., að ræða pólitískt inntak þeirrar spurningar.

Sú spurning sem ég beini til þingsins, hæstv. forseta og forsn., lýtur að öðru. Hún fjallar um grundvallaratriði. Hún fjallar ekki um þetta tiltekna fyrirtæki sem hér er spurt um. Á morgun getum við spurt um annað fyrirtæki og aðra stofnun. Það er ekki aðalatriði þessa máls eða fyrirspurnar minnar. Þetta snýst um grundvallaratriði, um upplýsingaskyldu stjórnvalda gagnvart Alþingi og þar með þjóðinni.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. forseta þingsins: Megum við treysta því að málið verði tekið til umfjöllunar í forsætisnefnd þingsins og Alþingi verði greint frá niðurstöðunum í byrjun næstu viku?