Jafnréttislög

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 12:36:14 (3923)

1999-02-19 12:36:14# 123. lþ. 70.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[12:36]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þarna kom hv. þm. akkúrat að kjarna málsins. Málið er það að ef forstjóri fyrirtækisins er karlmaður, fullur af fordómum og ræður ættingja, vini og karlmenn í stöður, þá er hann ekki að hugsa um arðsemi. Hann er ekkert að hugsa um það að græða. Það er það sem vantar inn í dæmið því annars hefur hann ekki efni á því að ráða vini sína og vandamenn eða flokksgæðinga á hærri launum en hann þyrfti að borga ella. Þá mundi hann að sjálfsögðu ráða hæfasta fólkið og það sem hægt er að fá ódýrast. Ef það yrði ofan á, ef krafan um arðsemi yrði ofan á, mundu allir ráða hæfasta fólkið. En því miður er það ekki svo og alveg sérstaklega hjá opinberum fyrirtækjum sem í síauknum mæli er að taka yfir atvinnulífið. Allt atvinnulífið er meira og minna sýkt af fé sem ekki er með hirði, sem ekki gerir kröfu um arðsemi. Þetta er meginhættan og þess vegna er hér svo mikið misrétti meðal fólks sem leiðir af sér misrétti kynja.