Jafnréttislög

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 13:01:31 (3929)

1999-02-19 13:01:31# 123. lþ. 70.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[13:01]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel að vonir félmrh. hafi glæðst um að frv. nái fram að ganga þrátt fyrir hversu seint það kemur fram, miðað við viðbrögð okkar sem hafa verið fremur jákvæð. En ég er stórhneyksluð á því, herra forseti, að ráðherrann skuli tala eins og frumvörp sem stjórnarandstaðan hefur átt aðild að samningunni á séu meingölluð. Þannig mátti skilja ráðherrann.

Hann rekur nokkur mál sem hafa komið á borð þingmanna þar sem stjórnarandstaðan hafi verið með í þeim nefndum þar sem frumvörpin voru unnin og talar um þau sem stórgölluð plögg og finnst réttlátt að félmrn. sé með meirihlutafrumvarp hingað inn á þing í svona stóru hagsmunamáli allra. Það eru líka mikil vonbrigði, herra forseti, að heyra svona ræðu eftir þau góðu viðbrögð sem við höfum sýnt í málinu alla umræðuna.

Varðandi fréttirnar hlýt ég að benda ráðherranum á að í ríkisstjórninni er bara einn tíundi konur. Þar sem ríkisstjórnin tekur mikið rými í pólitískum fréttum hlýtur það að hafa líka áhrif á það rými sem konur þar hafa almennt, af því hann nefndi konur frá Alþingi. Þetta var bara til upplýsingar.

Í umræðunni um fjárlög til jafnréttismála hefur ráðherrann misskilið mig vegna þess að ég er að tala um að eitt er markmið setningar jafnréttislaga og síðan er allt það sem þarf að breyta samkvæmt góðum áformum jafnréttislaganna sem kostar peninga. Það þarf að hækka laun og að því máli þurfa bæði ríki og aðilar vinnumarkaðarins að koma. Það þarf lengra fæðingarorlof, það þarf hærri fæðingarorlofsgreiðslur. Það þarf lengra veikindaleyfi vegna barna. Það þarf að fjölga dagvistarplássum. Það þurfa að vera meiri úrræði fyrir aldraða. Þetta kostar peninga. Allt snýst þetta um það sem þarf að vera í lagi til að fjölskyldan í heild sinni blómstri. Um það er ég að tala varðandi peninga.

Herra forseti. Einu svaraði ráðherrann ekki, og skiptir kannski ekki öllu úr því að hann kýs að vera með útúrsnúninga í umræðunni, og það er hversu margir verða á jafnréttisþinginu. Hvernig er þátttökufjöldinn hugsaður og hverjir af þeim eiga að hafa atkvæðisrétt?