Jafnréttislög

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 13:04:02 (3930)

1999-02-19 13:04:02# 123. lþ. 70.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[13:04]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég fór yfir þetta í ræðu minni rétt áðan og ég ætla ekki að endurtaka það. Hversu margir verða á jafnréttisþingi? Ég vona að þeir verði sem flestir. Jafnréttisráði er ætlað að setja þinginu starfsreglur og þingið setur sér þingsköp.

Ég er ekki að segja að það sé vegna þess að stjórnarandstaðan kom að þessum tveimur tilgreindu frumvörpum að þau eru meingölluð. Ég var að benda á að engin trygging er fyrir því að mál sé gott að formenn allra stjórnmálaflokka styðji það. Ég hefði t.d. í þessu tilfelli, talandi um kjördæmamálið, miklu frekar kosið þá leið sem Alþfl. hefur barist fyrir um langan tíma, þ.e. að gera landið að einu kjördæmi, en þau ósköp sem á að fara að lögleiða, þá annkannalegu kjördæmaskipun sem verið er að ákvarða í nýjum lögum.

Peningar til jafnréttismála eru ákvarðaðir á fjárlögum hverju sinni. Þó að kostnaðarmat fjmrn. telji 1 millj. kr. kostnaðarauka af samþykkt þessa frv. mega menn ekki slá því föstu að það sé einhver óbreytanleg tala.