Jafnréttislög

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 13:09:23 (3933)

1999-02-19 13:09:23# 123. lþ. 70.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[13:09]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég spurði hæstv. ráðherra nokkurra spurninga en fékk ekki svör við þeim öllum. Ég spurði m.a., sem ég bjóst reyndar ekki við að fá svar við: Hvað á að gera til að bæta stöðu kvenna í þessu frv.? Ég vildi gjarnan heyra hugleiðingar hans um það.

Í öðru lagi spurði ég áðan um skipuritið, hvort hæstv. ráðherra væri sammála því að það væri til bóta að breyta því þannig að jafnréttisfulltrúarnir í ráðuneytunum kæmu ofar í skipuritið þannig að það væri í raun og veru ábyrgð á að samþætta jafnréttismálin inn í alla málaflokka og ráðherrann sjálfur eða aðstoðarmaður hans tæki á því.

Ég tel að þetta frv. geri ráð fyrir meiri pólitískri ábyrgð á málaflokknum en áður hefur verið og spyr ég ráðherrann hvort það sé ekki einnig skilningur hans.

Varðandi eftirfylgnina og kostnaðinn vísar hæstv. ráðherra í framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Vel má vera að þar sé að finna sumar leiðir til þess að framkvæma eitthvað, t.d. jafnréttisfræðslu til æðstu ráðamanna og ýmislegt fleira en þar eru engir peningar. Ég tel að í þessu frv., og ef við lítum á framkvæmdaáætlunina líka, þurfi að gera mjög mikið, bæði í menntamálum, launamálum, fræðslumálum o.s.frv. en ekki er mannafli til þess. Ef á að fylgja þessu eftir er óhjákvæmilegt að verulega aukið fé komi til Skrifstofu jafnréttismála. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála því. Óháð upplýsingum um starfsmann í kynhlutlausu starfsmati og annað er verulegur munur á því sem kostað er til, t.d. í jafnréttismálum og samkeppnismálum, eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni. Þar að auki má t.d. nefna að úrskurðarnefndin á að hafa frumkvæði sjálf. Til þess þarf hún auðvitað mannafla og peninga.

Að lokum langar mig að spyrja um 29. og 30. gr. en þar segir að opinberum stofnunum sé skylt að láta Skrifstofu jafnréttismála og úrskurðarnefnd jafnréttismála í té hvers konar upplýsingar sem nauðsynlegar séu. Ég vil spyrja hvort það er skilningur ráðherrans að upplýsingar um launabókhald fylgi þarna með. Það skiptir verulegu máli ef við eigum að að komast eitthvað nálægt því að taka á launamun kynjanna.