Háskóli Íslands

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 15:29:41 (3944)

1999-02-19 15:29:41# 123. lþ. 70.5 fundur 509. mál: #A Háskóli Íslands# (heildarlög) frv., 510. mál: #A Háskólinn á Akureyri# (heildarlög) frv., 511. mál: #A Kennaraháskóli Íslands# (doktorsnafnbót, kærumál, gjöld o.fl.) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[15:29]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessar umræður og þær góðu undirtektir sem hafa verið við þessi þrjú frv. og ætla að fara yfir þau atriði sem hv. ræðumenn hafa helst minnst á.

[15:30]

Í fyrsta lagi vék hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir að því að annað orðalag væri á þeirri grein sem fjallar um skrásetningargjald en í kennaraháskólafrv. Frumvörpin um Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri eru að þessu leyti með sama orðalagi og er í núgildandi háskólalögum og núgildandi lögum um Háskólann á Akureyri. Ekki er ætlunin að breyta neinu og ástæðulaust að túlka orðalagið öðruvísi og fara út í umræður um skólagjöld eða slíkt. Það er algerlega ástæðulaust. Efnislega niðurstaðan er sú sama hvaða orðalag sem menn hafa á því, hvort það er eins og í þessum frumvörpum eða í lögum um Kennaraháskóla Íslands. Vafalaust mun hv. nefnd ræða þetta nánar. Þar munu menn skiptast á skoðunum um málið en efnislega breytir það engu hvoru orðalaginu er beitt eða hvort orðalagið er notað við lagasetninguna.

Varðandi það að ráðherra tilnefni menn í háskólaráðið, þá er þar farið eftir 13. gr. gildandi laga um háskóla. Ég fann það ekki upp á að kalla þetta fulltrúa þjóðlífs. Þau hugtök eru komin úr háskólasamfélaginu og sérstaklega frá Háskóla Íslands, úr greinargerð um þróun hans sem samin var á sínum tíma. Hér er gengið út frá því sem samþykkt var í 13. gr. háskólalaganna, að menntmrh. skipi þessa tvo fulltrúa í háskólaráð Háskóla Íslands og einn fulltrúa í háskólaráð Háskólans á Akureyri. Menntmrh. hefur skipað tvo fulltrúa í háskólaráð Kennaraháskólans. Ég veit ekki annað en að reynslan af því sé góð og háskólamenn og stjórnendur háskólans telji það skólanum til framdráttar að hafa utanaðkomandi menn í háskólaráðinu.

Menn hafa gert að umtalsefni fréttatilkynningu frá stúdentaráði Háskóla Íslands um þetta mál. Þar hafa þeir hins vegar sleppt því að greina frá því hvernig stúdentaráð vildi að þetta væri. Stúdentaráð lagði til að þessir fulltrúar yrðu kjörnir á Alþingi samkvæmt tilnefningu Hollvinasamtaka Háskóla Íslands, þ.e. Alþingi átti að vera bundið við tilnefningu Hollvinasamtaka Háskóla Íslands þegar það kysi menn í háskólaráðið. Eins og hv. þm. vita er það ekki tíðkað á hinu háa Alþingi, að menn leiti eftir tilnefningum samtaka á borð við Hollvinasamtökin þegar menn eru kjörnir í stjórnir og ráð þannig að þessi hugmynd stúdentaráðs gengur þvert á allt sem viðgengist hefur hér á Alþingi, enda hefur enginn ræðumanna tekið undir sjónarmiðin sem fram koma í fréttatilkynningunni.

Umræðurnar hafa ekki síst snúist um 18. gr. frv. og menn hafa túlkað hana og talið að í 2. mgr. 18. gr. væri farið á svig við ákvarðanir og ályktanir háskólaráðs frá 19. nóv. sl.

Ég ætla, herra forseti, að rökstyðja þá skoðun mína að alls ekki sé farið á svig við samþykktir eða ákvarðanir háskólaráðs í þeirri tillögu sem ég geri hér í 2. mgr. 18. gr. Varðandi 1. mgr. þá hefur hún líka verið afflutt í umræðum á undanförnum vikum. Sú ósk sem kemur fram í 1. mgr. 18. gr. er hins vegar komin frá Háskóla Íslands. Það er alfarið ósk háskólans að fá þessar heimildir. Einnig var talið eðlilegt að í sömu grein yrði ákvæði um að háskólaráði væri heimilt að greiða öðrum gjöld fyrir þá þjónustu sem þeir veittu háskólanum. Þess vegna er 18. gr. eins og hún er. Frumkvæðið að henni kom frá háskólaráði og síðan er hún útfærð þannig að háskólaráð hefur annars vegar heimild til að innheimta gjald fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar þjónustu sem háskólanum er skylt að veita og síðan er háskólanum eða háskólaráði veitt heimild til að semja við stúdentaráð Háskóla Íslands, önnur félög stúdenta, hollvinasamtök, einstaklinga, samtök þeirra og fyrirtæki eða opinberar stofnanir um að taka að sér þjónustu fyrir hönd Háskóla Íslands, enda sé farið að ákvæðum í 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins.

Þetta ákvæði hafa menn gert að umtalsefni en ég tel að í því felist alls ekki bann við að háskólaráð semji við stúdentaráð Háskóla Íslands nema síður sé. Þarna er háskólaráði veitt jákvæð heimild til að semja við stúdentaráð. Sjálfur var ég á sínum tíma varaformaður og formaður stúdentaráðs og starfaði í ráðinu í meira en tvö ár í varaformennsku og formennsku. Mér er mjög vel kunnugt um sögu stúdentaráðs, hlutverk þess og alla starfsemi þannig að óþarft er að fara yfir það með mér hvaða hlutverki stúdentaráð gegnir. Ég var í háskólanum á sínum tíma þegar Félagsstofnun stúdenta var stofnuð og átti hlut að því að henni var komið á laggirnar. Það er fyrst og fremst hún sem hefur gjörbreytt allri aðstöðu fyrir stúdenta við Háskóla Íslands á undanförnum árum.

Í þessari margumtöluðu samþykkt háskólaráðs frá 19. nóv. sl. segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Með breytingunni`` --- þ.e. með þessari tillögu sem menn hafa lesið --- ,,er þannig leitast við að tryggja með ótvíræðum hætti að háskólaráði verði heimilt að ganga til samninga við stúdentaráð Háskóla Íslands um rækslu tiltekinnar þjónustu gegn greiðslu og verja til þess hluta skrásetningargjalds. Með tillögunni nást einnig þessi markmið:

a. Ekki er lögbundin greiðsluskylda stúdenta til eins félags enda áréttað að um er að ræða þjónustusamning samkvæmt 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins.

b. SHÍ á ekki lögvarinn rétt til þess að háskólaráð gangi til samninga við það um rekstrarverkefni. Um heimild er að ræða sem háskólaráð metur heildstætt út frá rekstrarmarkmiðum sínum hvort rétt er að nýta hverju sinni.

c. Telji háskólaráð sér ekki hagkvæmt að semja við SHÍ getur það samið við aðra aðila um rækslu ákveðinna verkefna á grundvelli 3. mgr. 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins. Rétt er að taka fram að ákvæði 30. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, gilda um alla þjónustusamninga. Seinni málsliður tillögunnar er því eingöngu til að árétta eðli samnings við stúdentaráð og þær reglur sem um hann gilda.``

Þetta segir í ályktun háskólaráðs frá 19. nóv. sl. Ég fullyrði að ekkert í því frv. sem ég hef lagt fram brýtur í bága við þetta. Þvert á móti er 2. mgr. 18. gr. frv. í fullu samræmi við samþykkt háskólaráðs og ég skora á hv. þm. að reyna að halda því fram að misræmi sé á milli 2. mgr. 18. gr. laganna og þess sem segir í þessari samþykkt háskólaráðs. Það er kjarninn í samþykkt háskólaráðs sem ég hef að leiðarljósi þegar ég set þetta upp eins og gert er í frv.

Þar er einnig gengið lengra en háskólaráð gerir. Þar er heimild háskólaráðs til þess að semja við stúdentaráð ekki bundin við hluta af skrásetningargjöldunum. Þar er heimildin óbundin af því hvaða fjármuni háskólaráð hefur í huga þegar það er að velta fyrir sér þjónustunni sem um er rætt og áhugi er á að kaupa af öðrum aðilum. Ég verð því að ítreka, herra forseti, að mér finnst gagnrýni á frv. á þessum forsendum, þegar menn vísa í samþykkt háskólaráðs frá 19. nóv. sl., næsta marklaus og falla um sjálfa sig þegar menn lesa samþykkt háskólaráðs og frv. og heyra það sem ég hef um þetta mál að segja, þær skýringar sem ég hef gefið. Þetta vildi ég segja um það atriði. Ég tel að ég hafi í einu og öllu, með þeim frumvarpstexta sem hér liggur fyrir, farið að samþykktum háskólaráðs þótt ég hafi ekki skipað því í 3. mgr. 13. gr. heldur sé það í 2. mgr. 18. gr. Það getur ekki verið að menn setji það fyrir sig þegar um þetta mál er fjallað efnislega.

Þetta var það atriði sem flestir gagnrýnendur frumvarpanna nefndu. Eins og ég hef bent á, herra forseti, er málsmeðferð mín alfarið í samræmi við samþykktir háskólaráðs frá 19. nóv. 1998.

Varðandi það sem menn hafa rætt sérstaklega og velt fyrir sér um stjórnkerfi háskólanna, þá hefur komið fram að það er einfaldað og skilgreint markvissar á grundvelli stjórnsýslulaga og þeirra reglna sem við höfum sett á undanförnum árum. Ég er viss um að þessi nýmæli eiga eftir að gjörbreyta innra starfi háskólanna og styrkja á alla lund.

Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir spurði um túlkun á 7. gr. laganna í frumvarpinu um Háskólann á Akureyri þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Menntamálaráðherra skipar rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs. Skal staðan auglýst laus til umsóknar. Háskólaráð setur reglur um hvernig staðið skuli að tilnefningu rektors.``

Þetta ákvæði ber að túlka eins og hv. þm. gerði, að ef háskólaráð við Háskólann á Akureyri vill efna til kosninga eða leita að frambjóðendum til rektors við skólann á einhvern hátt, þá getur háskólaráðið sett reglur sem þjóna þeim tilgangi. Í þessu tilliti eins og öllu öðru, þegar litið er á þessi frumvörp, er stjórnendum háskólanna skapað aukið svigrúm. Það er alrangt að halda því fram að í frumvörpum þessum felist aðför að félagsstarfsemi stúdenta við þessa skóla. Háskólaráðum eru þvert á mótti veittar heimildir til að semja við stúdentaráðin á þeim forsendum sem óskað hefur verið eftir af háskólaráði Háskóla Íslands og sömu reglur eiga að gilda í öllum skólunum.