Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 14:15:47 (4028)

1999-02-25 14:15:47# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[14:15]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er það rétt hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að taka þurfi tillit til íslenskrar náttúru. Það þarf líka að taka tillit til íslenskra byggða. Það þarf að taka tillit til fólksins sem býr í landinu og þetta hefur alla tíð verið samofið nýtingu á náttúruauðlindum okkar. Ef menn vilja hafa þá stefnu að hætta að nýta náttúruauðlindirnar, eins og mér heyrist helst á hv. þm. núna, þá er rétt að gera fólkinu grein fyrir afleiðingum þess fyrir velferð þess, afkomu og möguleikum þess til að skapa sér gott líf í landinu.

Hv. þm. sagði að í ræðu minni væru svo sem engin tímamót að því er varðaði ESB. Hann sagði, sem ég man ekki eftir að hann hafi sagt fyrr þó svo megi vel vera, að við ættum að kappkosta að eiga góð samskipti við Evrópusambandið. Hvað þýðir það? Þýðir það að standa utan við Schengen-samstarfið, loka sig af og taka ekki þátt í neinu? Er mögulegt að eiga góð samskipti við ESB ef menn reyna ekki að starfa með þeim á þeim sviðum sem menn telja þjóna íslenskum hagsmunum, m.a. með því að tryggja frjálsan flutning fólks á milli landa? Þjónar það hagsmunum Íslands að við lokum okkur af í því sambandi?

Hv. þm. Steingrímur Sigfússon, flokksbróðir hv. þm., hvatti mig til þess að opna glugga. Væri nú ekki rétt að þeir sem ákveðið hafa að bjóða fram undir vinstra nafninu opni einnig glugga og átti sig á því að við lifum ekki einir í heiminum, ekki bara í umhverfismálum heldur í ýmsum öðrum málum? Við þurfum að kappkosta gott samstarf og þá þurfum við að leggja eitthvað á okkur, ekki bara á sviði umhverfismála heldur líka í í öðrum málaflokkum.