Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 15:20:57 (4050)

1999-02-25 15:20:57# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[15:20]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ísland mun sækja fundinn í mannréttindanefndinni 20. mars og við erum líka í undirbúningsnefnd og munum sækja undirbúningsfund nk. mánudag að því er þetta mál varðar. Við höfum stutt tillögur vegna mannréttindabrota í löndum eins og Íran, Írak, Afganistan og fleiri löndum. Við höfum stutt tillögur í sambandi við baráttu gegn dauðarefsingu og við erum á móti dauðarefsingu hvar svo sem hún er framkvæmd, einnig í Bandaríkjunum. Við höfum einnig lagt fram tillögur í baráttunni gegn aftökum án dóms og laga. Við höfum tekið þátt í að flytja tillögur um vernd þeirra sem berjast fyrir mannréttindum, sem ekki veitir af, og við höfum jafnframt barist fyrir tillögum um viðurkenningu á að mannréttindi séu algild, það skiptir einnig miklu máli, og við munum halda áfram að berjast fyrir slíkum málum á þessum vettvangi.

Ég vil jafnframt geta þess að við höfum stóraukið samstarf okkar við félagasamtök innan lands og nefni í því sambandi mannréttindaskrifstofuna. Við höfum unnið allmikið starf í að fá það ágæta fólk til betra samstarfs og samhæfa starfsemi þeirra sem vinna á þessum vettvangi. Við höfum jafnframt átt mjög gott samstarf við önnur félagasamtök og ég get nefnt í því sambandi samtökin Barnaheill, en þau samtök hafa mætt fyrir okkar hönd og verið fulltrúar Íslands á tveimur alþjóðlegum ráðstefnum um málefni barna. Á þann hátt viljum við virkja í ríkari mæli það ágæta fólk sem vinnur að mannréttindum innan lands í margvíslegum félagasamtökum, ekki bara innan Amnesty International, sem eru mjög mikilvæg samtök, heldur jafnframt mörg önnur samtök, Rauða krossinn og mörg önnur sem ég hef ekki tíma til að telja upp.