Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 15:55:19 (4064)

1999-02-25 15:55:19# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[15:55]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held engir hafi gegnt embætti utanrrh. jafnlengi á Íslandi, a.m.k. ekki eftir að lýðveldi var stofnað, og jafnaðarmenn. Það hafa engir aðrir átt jafnmikinn þátt í ... (ÁMM: Alþýðuflokksmenn?) eins og Alþýðuflokksmenn, jafnaðarmenn. Alþýðuflokkurinn heitir Alþýðuflokkurinn, jafnaðarmannaflokkur Íslands. (ÁMM: Þið eruð búin að stækka hugtakið ...) Það hafa engir átt jafnmikinn þátt í að móta utanríkisstefnu Íslendinga og félagsmenn í þeim flokki. Samt sem áður hefur kaldastríðsliðið í Sjálfstfl. alltaf verið í hælunum á okkur um að okkur sé ekki treystandi, að við ætlum að svíkja og selja land, þannig að þeir hafa ekkert gefið þeim eftir sem voru að tala um landssölu og landssvik þegar kalda stríðið stóð sem hæst hér á árunum áður. En við lifum á árinu 1999 en ekki á fimmta og sjötta áratugnum. Þingmenn Sjálfstfl. ættu að fara að gera sér grein fyrir þessu nákvæmlega eins og utanrrh. sem er fyrir löngu búinn að því. Þessi málflutningur, stöðugar ásakanir um svik við meginatriði í utanríkisstefnu Íslendinga, er satt að segja ekki bara orðinn leiðinlegur af þeirra hálfu, heldur þeim til háðungar.