Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 16:37:52 (4075)

1999-02-25 16:37:52# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[16:37]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Er það mögulegt að hv. þm. og formaður utanrmn. geri sér ekki grein fyrir því að á þeim fimm árum sem liðin eru frá því að Jón Baldvin Hannibalsson var utanrrh. hefur átt sér stað mjög merkileg þróun á sviði utanríkismála? Fyrir hálfum áratug voru menn að gera sér vonir um að kalda stríðinu væri að ljúka. Þá hafði átt sér stað þíða, slaki í spennunni í samskiptum austurs og vesturs frá árinu 1989, þegar Berlínarmúrinn féll öllum að óvörum. Núna hins vegar er það alveg ljóst að á þessu tímabili, frá því að Jón Baldvin Hannibalsson var utanrrh., hefur þessi þróun verið staðfest. Við vitum það núna og stöndum frammi fyrir því að aðstæður eru breyttar.

Þessar breyttu aðstæður fela það m.a. í sér að það sem við töldum að væri raunveruleg hernaðarógn fyrir kannski hálfum áratug, sex, sjö árum, teljum við ekki vera ógn í dag. Hún er a.m.k. verulega dvínandi. Og hæstv. utanrrh. tekur á því eða starfsmenn hans leggja til áherslubreytingar á öryggi landanna.

Ég hef komið hér upp og tekið undir það sem þar kemur fram og sagt að þessi hugsun hæstv. utanrrh. væri eins og ferskur gustur miðað við lognmolluna sem virðist ríkja í hugardjúpum hv. þingmanna Sjálfstfl. Og hv. þm. gengur nákvæmlega í sömu gildru og hann virðist helst vilja dvelja í allar stundir. Hann kemur og staðfestir allt það sem ég sagði.

Ég sagði: Við á vinstri vængnum megum ekki taka upp svona mál án þess að okkur sé núið það um nasir að við séum að undirbúa brottför hersins. Og það er nákvæmlega það sem hv. þm. neri mér um nasir. Þar með staðfesti hann að hann er fastur í hjólförum kalda stríðsins þar sem sumum leyfist að segja hluti og þeir verða þá að koma hægra megin við miðjuna, eða vera a.m.k. á hægri kanti miðjunnar, en okkur hinum leyfist það ekki. Það sem hæstv. utanrrh. segir er fínt í munni og huga hv. þm., en Össur Skarphéðinsson má ekki segja það sama, þá vill hann að Ísland fari út NATO.