Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 16:59:29 (4081)

1999-02-25 16:59:29# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[16:59]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Það þurfti svo sem ekki gáfumann til að segja fyrir um að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson mundi koma upp og kalla hér yfir hv. þingheim: Kaldastríðsáróður. Og Stalín er ekki hér. Jú, gamall titill á gömlu leikriti eða var það Stalín á ekki heima hér? Stalín er ekki heima, eða hvernig sem það var? (SighB: Stalín er ekki hér.) Já, þetta er greinilega ... (SighB: Þitt leikrit heitir Stalín er enn þá hér.) Það er greinilegt að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson þekkir meira til Stalíns en ég.

Eins mikið og þeir hafa lesið fylgiskjal hæstv. utanrrh. þá hafa samfylkingarmenn náð að miskilja það svo að þetta sé fyrsta skýrslan af þessu tagi sem birt hafi verið. Árið 1993 var birt skýrsla um öryggis- og varnarmál sem þessi skýrsla byggir á. Ég er alveg sannfærður um það að þáv. hæstv. utanrrh., og reyndar þáv. formaður Alþfl., hefur örugglega ekki látið undir höfuð leggjast að dreifa henni hér á Alþingi. Það er því alls ekki rétt sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson segir, að hér sé í fyrsta skipti verið að dreifa skýrslu sem þessari á hv. Alþingi.

Hvað það varðar að ég sjái ekkert nýtt eða gott við skýrsluna þá það rangt. Ég tel þetta vera afbragðsskýrslu, unna af afbragðsmönnum sem, eins og ég hef sagt í fyrri ræðu, hefðu undir öðrum kringumstæðum verið kallaðir haukarnir í varnarmáladeildinni og á NATO-skrifstofunni.