Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 17:03:23 (4083)

1999-02-25 17:03:23# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[17:03]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög sérstakt hve hv. þm. Sighvatur Björgvinsson ber mikla umhyggju fyrir því hvernig mér líður og fyrir því að ég hafi látið undir höfuð leggjast að hrósa hæstv. utanrrh. nægjanlega mikið. Ef það hefur eitthvað misskilist þá er ég honum afar þakklátur fyrir hans ágætu skýrslu og hans ágætu ræðu og ég tel að hann standi sig með prýði í sínu starfi og ber til hans fullt traust.

En það er einkennilegt að í hvert einasta skipti sem nafn hæstv. fyrrv. utanrrh., Jóns Baldvins Hannibalssonar, ber á góma, fyrrv. formanns Alþfl., þá umturnast fyrrv. þingmenn Alþfl., þingflokksins sem búið er að leggja niður, þá umturnast þeir. Og þeir vilja ekki láta hann njóta sannmælis. Það voru engir ferskir vindar þegar hann var utanrrh. Það voru engir ferskir vindar í skýrslunni frá 1993. Það var ekkert nýtt í henni. Það gerðist ekkert gott þegar Jón Baldvin Hannibalsson var utanrrh.

Þetta er einkennilegt, sérstaklega frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni sem gegnir í dag enn þá formennsku Alþfl. Því að þótt þingflokkurinn hafi verið lagður niður þá er Alþfl. enn þá til. En talsmaður þeirra, talsmaður Alþfl. í dag er formaður Alþb.