Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 17:11:08 (4087)

1999-02-25 17:11:08# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[17:11]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég nefndi ekki fjögur ár í ræðu minni varðandi varnar- og öryggismálastefnu Samfylkingarinnar. En það er auðvitað ekkert einkennilegt þótt menn spyrji sig hvort verið sé að tjalda til einnar nætur. Og hvað gerist svo?

Eins og ég var að segja frá fyrr í dag þá lýsti frambjóðandi Samfylkingarinnar, fulltrúi Samfylkingarinnar á fundi hér í borginni í dag því yfir að Samfylkingin ætlaði að bíða með að taka afstöðu til þess hvort Ísland ætti að vera aðili að NATO eða ekki. Og í umræðu í þinginu ekki fyrir löngu síðan, þar sem til umræðu var þáltill. um hvort herinn ætti að fara og Ísland ætti að fara úr NATO, fagnaði formaður Alþb., talsmaður Samfylkingarinnar, tillögunni og sagði að Samfylkingin væri sammála henni í meginatriðum.

Það er því ekkert skrýtið þótt menn velti því fyrir sér hver stefna Samfylkingarinnar sé. Ég fer ekkert í grafgötur með það hver stefna hv. þm. Sighvats Björgvinssonar er eða hver er eða var stefna Alþfl. Og ég þykist merkja það á viðbrögðum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að hann sé hv. þm. Sighvati Björgvinssyni sammála. En staðreyndin er bara einu sinni sú að fleiri eru í Samfylkingunni en þessir tveir ágætu alþingismenn.

Hver er skoðun talsmannsins? Hvert er hlutverk talsmannsins? Á hann að túlka þá skoðun sem hún hafði áður en hún var gerð að talsmanni eða á hún hér eftir að túlka bara þá skoðun sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafa, fram að kosningum, eftir kosningar, í fjögur ár eða eftir fjögur ár? Það skiptir ekki máli. Það skiptir máli að menn hafi stefnu, þori að segja frá henni og þori að standa við hana. En það þorir Samfylkingin ekki í þessu máli.