Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 17:27:28 (4089)

1999-02-25 17:27:28# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[17:27]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get fullvissað hv. þm. Kristján Pálsson um að þær tillögur sem hér eru settar fram, um að kanna leiðir til þess að Íslendingar geti axlað stærra hlutverk í vörnum landsins, hafa þann tilgang að treysta samskiptin við Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið. Hér er því ekki farið út á þá braut að veikja þau samskipti á einn eða annan hátt. Hins vegar gerum við okkur grein fyrir því að þetta samstarf tekur breytingum, hefur tekið breytingum og mun taka breytingum í ljósi þróunar alheimsmála.

Í tillögunum er komið að ýmsu sem varðar varnir landsins, beint eða óbeint, m.a. þátttöku okkar í störfum Atlantshafsbandalagsins, þar sem við getum ekki litið á varnir Íslands sem einangrað fyrirbæri. Það verður að líta á varnir Íslands í samhengi við varnir annarra landa. Við fjöllum um samstarf við Evrópuríki og Evrópusambandið. Við nefnum norrænt samstarf og þá staðreynd að við ætlunin er að smíða nýtt varðskip sem nýta megi bæði í vörnum landsins og einnig til þess að auka samstarf við aðrar þjóðir, t.d. innan samtaka í þágu friðar. Einnig er komið inn á ýmislegt er varðar innra öryggi.

Við höfum tekið yfir ákveðna þætti í því starfi sem Bandaríkjamenn hafa verið með hér. Við höfum verið í viðræðum við þá um að taka yfir þyrlubjörgunarsveitina á Keflavíkurflugvelli, sem kemur vel til greina, án þess að niðurstaða hafi náðst. Allt gengur þetta út á að ná meiri hagkvæmni og niðurstöðu sem geti orðið Íslandi, Bandaríkjunum og Atlantshafsbandalaginu til góðs í ljósi nýrra tíma.