Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 17:36:17 (4093)

1999-02-25 17:36:17# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[17:36]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að láta í ljós ánægju mína með aukin umsvif utanríkisþjónustunnar og þann kraft sem virðist ríkja þar. Ég tel hann mjög nauðsynlegan á tímum aukinnar alþjóðavæðingar. Einnig fagna ég sérstaklega þeim sóknarfærum sem Íslendingar virðast hafa á þessu og næsta ári, svo og Norðurlöndin í heild. Ég tel að það sé ákjósanlegt tækifæri til þess að nýta þessa stöðu.

Þá vil ég taka undir með þeim hv. þm. sem hafa talað og láta í ljós þá skoðun að hér sé um mjög merkilega skýrslu að ræða frá hæstv. utanrrh. Ég er að mörgu leyti sammála að þetta sé öðruvísi skýrsla en hefur verið flutt undanfarin þing og það eru einkum fjögur atriði sem ég vil gera að umtalsefni.

Í fyrsta lagi það sem margir hafa komið inn á, þ.e. skilgreiningin á varnar- og öryggismálum. Satt best að segja var nokkuð skemmtileg tilbreyting að sjá skýrslu ráðherrans og ekki síst fylgiskjalið eftir að hafa setið í utanrmn. undanfarna fundi og verið þar m.a. ræða um þáltill. um nefnd sem átti að endurskoða veru hersins hér á landi. Þar voru mjög ákveðin kaldastríðssjónarmið ráðandi. Ég hafði beðið um gögn til þess að fá upplýsingar um varnarþarfir í framtíðinni, hverju megi búast við um fjölda starfsmanna og efnahagsþróunina á Keflavíkurflugvelli. Því miður fengust aðeins gögn fram til 1998 en ekki neitt fram í tímann. Hér koma hins vegar ágætisgögn sem ég hefði gjarnan viljað sjá fyrr og því finnst mér bæði skýrslan og umræðurnar í dag lofa mjög góðu um að það megi vænta skynsamlegrar umræðu um stöðu þessara mála. Ég vil t.d. vekja sérstaklega athygli á skilgreiningu á öryggisþörfum sem eru á bls. 13--14 í skýrslu hæstv. utanrrh. Þar er komið inn á mjög víðtækar skilgreiningar, m.a. talað um hryðjuverk, fíkniefni og annað slíkt þannig að ég tel að þetta sé mjög í takt við tímann og fagna skilgreiningunni. Ég er sammála hv. þm. Margréti Frímannsdóttur um að um nýja nálgun sé að ræða og opnari nálgun og er það vonandi til marks um að við séum að komast upp úr þeim kaldastríðshjólförum sem virtust því miður enn þá ríkja í hv. utanrmn. allt þangað til í gærkvöldi að mér skilst en ég var ekki viðstödd þann fund.

Í öðru lagi fagna ég umfjölluninni um Evrópusambandið og EES sem kemur fram í skýrslunni. Þar finnst mér vera tekið nokkuð opið á málum. Ég fagna sérstaklega því sem þar er að gerast með hina svokölluðu norðlægu vídd, þ.e. að það eigi að líta sérstaklega á norðlæga hluta Evrópu sem sérstakt svæði. Það er gott að þetta á að taka upp í norrænu ráðherranefndinni. Og þó að við séum ekki aðilar að ESB, þá tengist þetta auðvitað okkar svæði og umfjöllun um Norðurlönd. Ég fagna og sérstaklega umræðunni um EES, um að þátttaka okkar Íslendinga í fimmtu rammaáætluninni um rannsóknir og þróun er tryggð, en á tímabili leit svo út að við værum að detta út úr þeirri áætlun. Nú hefur náðst samkomulag um nýjan lánasjóð til fimm ára í stað þróunarsjóðs EFTA. Þó að lendingin sé e.t.v. ekki sú sem við vonuðumst eftir í byrjun þá fagna ég því að þessi lending hefur náðst.

Einnig er opinská umræða t.d. um sjávarútvegsmálin sem þröskuld fyrir því að við getum gengið inn í Evrópusambandið. Þetta er hreinskiptari umræða en ég hef oft séð um þessi mál. Einnig fagna ég því sem þarna kemur fram um Schengen. Þótt ekki hafi náðst niðurstaða þar eru líkur á að viðunandi lausn náist í því máli þó að það verði ekki fyrr en í haust. En ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér fannst mjög athyglisvert orðalagið á bls. 10 þar sem hæstv. ráðherra segir: ,,Ég tel samningsstöðu okkar gagnvart ESB best borgið með því að skilgreina sem nánast ...`` o.s.frv., þ.e., mér finnst hann ganga nokkuð langt þarna að ræða um samningsstöðu og þarna er gengið töluvert lengra en Samfylkingin hefur haft á prjónunum. Við höfum talað um að annað væri óeðlilegt en að þessi mál verði á dagskrá þó að ekki sé ætlunin að sækja um aðild. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra nánar hvað hann eigi við með þessu orðalagi um samningsstöðu. En ég tel að þessi kafli um EES sé í þeim anda sem hæstv. ráðherra hefur reifað áður á opinberum vettvangi en ekki í þinginu. Ég tel þetta mjög markvert og til marks um að ekki eigi að stinga höfðinu í sandinn hvað varðar þessi mál heldur eigi að átta sig á hvað er að gerast.

Þriðja atriðið sem ég vil gera að umræðuefni og það sem ég varð fyrir langmestum vonbrigðum með er afstaðan til undirritunar Kyoto-bókunarinnar. Hæstv. forseti. Ég er mjög ósátt við þá afstöðu sem ríkisstjórnin tekur að undirrita ekki bókunina fyrir 15. mars. Ég er alls ekki sammála því að það mundi draga úr trúverðugleika okkar í málinu að undirrita bókunina. Þvert á móti tel ég að við verðum mjög ótrúverðug sem talsmenn hreinna náttúruauðlinda og hreins lofts ef við skrifum ekki undir.

Ég tek undir málflutning annarra samfylkingarmanna í þessu máli, t.d. hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur og Össurar Skarphéðinssonar. Ég tel að það séu gífurlega stór mistök að undirrita ekki bókunina. Einnig þykir mér mjög vont að það er vanrækt að taka þetta mál lýðræðislega fyrir í þinginu. Þar á ég annars vegar við tillögu sem liggur fyrir í umhvn. og ég er einn flm. að en þetta er tillaga sem nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar hafa flutt. Svo virðist sem þessi tillaga sitji þar föst og er vonandi að hv. formaður umhvn. standi við orð sín og afgreiði það mál inn í þingið og helst fyrir 15. mars þannig að þinginu gefist kostur á að greiða atkvæði um málið.

[17:45]

Hins vegar gagnrýni ég að þetta mikilvæga mál hafi ekki verið rætt á vettvangi utanrmn. fyrr en eftir að ráðherrann er búinn að gera afstöðu ríkisstjórnarinnar kunna. Ég er ekki síst hissa á þeirri afstöðu ríkisstjórnarinnar vegna þess hve í raun er sleginn svartsýnn tónn í skýrslu hæstv. ráðherra um þessi mál og um sérstöðu Íslands á bls. 7. Þar eru ekki látnar í ljós miklar vonir um hvert þessi íslenska leið muni leiða. Ég leyfi mér að vitna í skýrsluna á bls. 7 en þar segir, með leyfi forseta:

,,Þótt skilningur hafi aukist á sérstöðu okkar litla hagkerfis hafa samkvæmt framansögðu engar skuldbindandi ákvarðanir verið teknar um formlega eða efnislega afgreiðslu málsins. Óvissa ríkir um hvenær og hvernig íslenska ákvæðið verður útfært. Andstaða er við tillögu Íslands að útfærslu ákvæðisins meðal ýmissa aðildarríkja.``

Þetta eru einmitt þau skilaboð sem mér finnst ég hafa heyrt af öllum þeim ráðstefnum sem hingað til hafa verið haldnar um málið. Þess vegna finnst mér mjög furðulegt að ríkisstjórnin sé að slá höfðinu við steininn og halda áfram þessum leik. En enn þá er nokkur tími eftir til 15. mars og ég vona svo sannarlega að málið fái a.m.k. lýðræðislega umfjöllun í þinginu fyrir þann tíma.

Fjórða atriði sem ég vil gera að umtalsefni er að ég vil láta í ljós vonbrigði yfir því hve lítið er talað um konur og börn í þessari skýrslu en fyrri skýrslur hafa oft tekið markvissar á málum þeirra, t.d. varðandi mannréttindi eða þróunaraðstoð. Þó er komið inn á málefni kvenna og mannréttindi á bls. 4 í skýrslu hæstv. ráðherra í tengslum við Sameinuðu þjóðirnar. Þar segir að á síðasta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hafi Ísland gerst virkur þátttakandi í umræðum um mannréttindamál og lagt sérstaka áherslu á réttindi kvenna og barna. Ég fagna þessu en spyr um leið hvort þarna sé um áherslubreytingu að ræða af hálfu ráðuneytisins eða hvort til hafi komið aukamannafli hjá fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, þ.e. var það einungis af því að núna var hægt að fara að sinna mannréttindanefndinni eða var þetta markviss tilfærsla yfir í þessa nefnd?

Satt best að segja væri fróðlegt að fá nánari upplýsingar um gang þessara mála, ekki síst um það hvort fulltrúar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum eru meðvitaðir um þá gagnrýni sem er nú að verða æ háværari um að mannréttindasáttmálar, þar með talinn sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum hafi karlaslagsíðu. Algild mannréttindi taki oft um of mið af sjónarmiðum hvítra karla á kostnað margbreytileika kvenna og fólks almennt. Ég nefni þetta nú vegna þess að ég var einmitt í hádeginu í dag að koma af fyrirlestri sem var fluttur af Ragnheiði Elfu Þorsteinsdóttur lögfræðingi um konur og mannréttindi og var fyrirlesturinn á vegum Rannsóknastofu í kvennafræðum við Háskóla Íslands. Þar var tekið fram að þetta væri vaxandi gagnrýni í fræðunum en oft væri langur vegur frá fræðilegri gagnrýni til þess sem gerist í praxís í pólitíkinni. En þetta sýnir hve mikilvægt er að bæði í utanríkisþjónustunni sé meira kynjajafnrétti en nú er og einnig að fólk sé upplýst um hvernig unnið er af hálfu utanrrn. að mannréttindamálum, t.d. félagasamtök, í þessu tilviki kvennasamtök og mannréttindasamtök. Mjög mikilvæg umræða er í gangi hjá mannréttindasamtökum og félagasamtökum sem kemst oft ekki inn til þeirra sem vinna að þessum málum á vegum stjórnmálamanna. Ég tel að þetta sé mjög gott dæmi um það og væri vonandi, ef ráðuneytið ætlar sér að auka áherslu á konur og mannréttindi, að þar verði mjög upplýst fólk.

Í fyrirlestrinum kom t.d. fram að víða er jafnrétti kvenna og karla að komast á lagalega séð en það sé jafnljóst, og ekki síst hér á landi, að langt er frá því að jafnrétti hafi náðst í reynd. Þá má spyrja: Í hverju á þá mannréttindabaráttan að felast fyrir konur? Það er mjög mikilvægt að starfsfólk ráðuneytanna sé upplýst um þetta. Í framhaldi af þessu vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé hættur að leggja áherslu á konur og börn varðandi þróunaraðstoð og flóttamenn, því mig minnir að það hafi verið í síðustu skýrslu hans sem talað var um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fleiri alþjóðastofnanir hafi sýnt fram á að þar er oft mesta árangurs að vænta ef eitthvað á að ganga á þessu sviði.