Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 17:51:43 (4094)

1999-02-25 17:51:43# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[17:51]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi að því er varðar það sem hv. þm. spurði um samningsstöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu, þá erum við í stöðugum samningum við Evrópusambandið á ýmsum sviðum og á ýmsum stigum og það skiptir afar miklu máli í öllum samskiptum okkar við Evrópusambandið að skilgreina stöðu okkar sem best. Við höfum lagt á það áherslu að við höfum ekkert á móti Evrópusambandinu. Við teljum nauðsynlegt að það sé stækkað og við höfum lagt mikla áherslu á góð samskipti við það. Hins vegar höfum við farið yfir þau vandamál sem eru því samhliða að við þurfum að standa utan Evrópusambandsins og hvað þurfi einkum að breytast ef það eigi að geta orðið að veruleika. Með því erum við ekki að taka afstöðu til þess hvort og hvenær það skuli gert. Við viljum aðeins greiða veginn fyrir því ef einhvern tíma verði sú afstaða á Íslandi og ég tel að það sé skylda utanríkisþjónustunnar á hverjum tíma að halda þannig á málum.

Málefni kvenna og barna hefur verið mikið áhersluatriði hjá utanrrn. um langan tíma. Það á ekki síst við um þróunaraðstoð og mér er það mjög vel ljóst eftir för mína til Afríku á sl. ári hversu mikilvægt er að sinna þeim málum afar vel, því þar sér maður þörfina betur en nokkurs staðar annars staðar og hvaða misrétti er í gangi, ekki síst gagnvart konum og börnum. Þess vegna leggjum við líka áherslu á þennan málaflokk á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og munum gera það áfram. Við gerum það jafnframt í samstarfi okkar við félagasamtök. Við eigum náið samstarf við mannréttindaskrifstofuna, við samtökin Barnaheill, samtökin Amnesty International og við viljum auka samstarf við félagasamtök m.a. á þessum sviðum.