Svör við fyrirspurnum

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 10:37:21 (4102)

1999-02-26 10:37:21# 123. lþ. 73.91 fundur 291#B svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[10:37]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta Alþingis og forsn. fyrir viðbrögð við beiðni minni um að gengið yrði eftir því við hæstv. fjmrh. að hann svaraði fyrirspurn minni á Alþingi um kostnað við ráðgjafarþjónustu í tengslum við einkavæðingu og kerfisbreytingar hjá hinu opinbera. Í þessu samhengi er efnisatriði fyrirspurnarinnar aukaatriði. Hitt er aðalatriðið að réttur Alþingis til að rækja eftirlitshlutverk sitt gagnvart framkvæmdarvaldinu sé virtur. Þetta er grundvallaratriði og af orðum hæstv. forseta Alþingis má ráða að þetta er einnig hans mat og forsætisnefndar þingsins. Það er mikilvægt fyrir Alþingi og stöðu þess gagnvart framkvæmdarvaldinu að þetta skuli hafa verið staðfest.

Hæstv. fjmrh. sagði þegar þessi mál bar á góma í lok síðustu viku að menn kynnu að vera komnir út á hálan ís við að svara ekki þessari fyrirspurn. Af viðbrögðum hæstv. fjmrh. nú er ljóst að hann hyggst halda út af hinum hála ís og fá fast land undir fætur. Hann hefur brugðist við af ábyrgð og af sanngirni og fyrir það ber að þakka.