Lífeyrissjóður bænda

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 15:07:14 (4154)

1999-02-26 15:07:14# 123. lþ. 73.4 fundur 323. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (heildarlög) frv., Frsm. EOK
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[15:07]

Frsm. efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um Lífeyrissjóð bænda. Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði heildarlög um starfsemi Lífeyrissjóðs bænda. Er þeim að meginefni ætlað að laga starfsemi sjóðsins að ákvæðum laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þó nokkrum breytingum í tíu liðum.

Fyrsti liðurinn fjallar um að sjóðstjórn sé skylt að veita maka bónda sem er ekki aðili að búrekstri undanþágu frá sjóðsaðild að Lífeyrissjóði bænda o.s.frv. Þetta er ölítil breyting frá því sem segir í upphaflega frv., en þar segir einmitt að ,,sjóðstjórn sé heimilt``. Við töldum rétt að hafa þetta alveg skýrt þannig að ekkert færi á milli mála.

Lagðar eru til lagfæringar á frumvarpinu varðandi hugtakanotkun. Þessar breytingar miða að því að tryggja að einstaklingar í óvígðri sambúð og staðfestri samvist njóti sambærilegra réttinda og fólk í hjónabandi, samanber breytingar sem við höfum verið að gera á undanförnum árum

Þriðja breytingin er smávægileg. Hún er einföldun á textum.

Fjórða breytingin er það líka. Það eru bara lagfæringar, svo og fimmta. Þar er bara kveðið nánar á um það hvað átt er við með ,,næsta mánuð`` þannig að það fari ekkert á milli mála þegar verið er að ræða um launatímabil.

Í sjöttu breytingunni er lagt til að viðmiðunarfjárhæðir í 6. og 13. gr. frumvarpsins hækki til samræmis við þá breytingu sem varð hjá almennu lífeyrissjóðunum þegar þeir breyttu viðmiðun sinni úr lánskjaravísitölu í vísitölu neysluverðs.

Varðandi sjöundu breytinguna þá töldum við rétt að breyta orðalagi 21. gr. frv. en þar segir svo í frumvarpstextanum, með leyfi forseta:

,,Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að fjárhagur sjóðsins sé ótryggur og ætla megi að eignir muni ekki duga fyrir heildarskuldbindingum skal stjórn sjóðsins, að höfðu samráði við tryggingafræðing, lækka lífeyrisréttindi og lífeyrisgreiðslur, enda finnist ekki aðrar leiðir til að bæta hag sjóðsins.``

Við teljum rétt að breyta 21. gr. í þá veru að stjórnin geti eingöngu breytt lífeyrisgreiðslum með því móti að fara niður í lágmarksréttindi samkvæmt lögunum en ef gera þarf frekari breytingar þá þurfa menn að standa fyrir breytingum á lagatextanum.

Í áttunda lagi er gert ráð fyrir breytingu á 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða. Í ljós kom nú um áramótin að lífeyrir lækkaði vegna lækkunar vísitölu frá júlí 1998 til janúar 1999 og því þykir rétt að breyta orðalagi málsgreinarinnar til að réttindi eldri sjóðfélaga verði ekki skert.

Í níunda lagi er um að ræða breytingu á dagsetningu gildistöku. Upphaflega var gert ráð fyrir því í frv. að það tæki gildi 1. janúar 1999 en hér göngum við út frá því að þessi lagabreyting eigi sér stað 1. júlí 1999.

Tíunda breytingin leiðir svo af þessari dagsetningarbreytingu.

Gunnlaugur M. Sigmundsson var fjarverandi afgreiðslu málsins.

Undir nál. skrifa hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, Ágúst Einarsson, Steingrímur J. Sigfússon, Valgerður Sverrisdóttir, Sólveig Pétursdóttir, Einar Oddur Kristjánsson, Svavar Gestsson og Pétur H. Blöndal með fyrirvara.