Lífeyrissjóður bænda

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 14:35:49 (4233)

1999-03-02 14:35:49# 123. lþ. 75.9 fundur 323. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (heildarlög) frv. 12/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[14:35]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur ekki mikla trú á lýðræðinu. Hann reiknar með því að það mæti bara fimm á fund sjóðs sem er með fleiri þúsund sjóðsfélaga. (GHall: Til dæmis.) Til dæmis já.

Auðvitað munu miklu fleiri mæta þegar um það er að ræða að þeir geti haft áhrif á ávöxtun sjóðsins. Auk þess er gert ráð fyrir því að hægt sé að viðhafa leynilega póstatkvæðagreiðslu fyrir ársfund til þess að koma til móts við það að bændur búa mjög dreift. Þetta er að sjálfsögðu ákvörðun þeirra sem setja sjóðnum reglur, þ.e. ársfundar.

Varðandi það að fulltrúar peningastofnana og umboðsmenn mæti þarna þá sé ég ekkert að því að umboðsmenn séu í meiri hluta þarna. Ef hver og einn bóndi treystir ákveðnum manni til að fara með umboð sitt þá er það hans mál og ég treysti bændum sem og öðru fullorðnu fólki vel til þess að ákvarða hvort þeir mæta sjálfir eða fá sér umboðsmann, sem þá væntanlega fer að þeirra vilja á fundinum. Ég óttast þetta því ekki.

Ég verð að segja eins og er að ég treysti umboðsmönnum eða fulltrúum peningastofnana, sem á að vera eitthvað voðalega ljótt, mikið betur til þess að fara með þessa peninga en fulltrúum framkvæmdarvaldsins, ráðherrum, og Hæstaréttar. Hæstiréttur er ágætur í að fella dóma en hann er kannski ekki endilega bestur til að ávaxta fé. Ég treysti því fulltrúum peningastofnana. Ef þeir hafa fengið umboð viðkomandi sjóðfélaga þá treysti ég þeim fullvel til þess að fara með það lýðræði sem þarna er um rætt.