Stefna í byggðamálum fyrir árin 1999-2001

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 16:32:42 (4242)

1999-03-02 16:32:42# 123. lþ. 75.14 fundur 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[16:32]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. svaraði kannski ekki spurningum mínum beint. Ég vil því segja að ég er sjálfur sannfærður um að við þurfum að grípa til miklu skjótvirkari aðgerða til þess að stöðva fólksflóttann og það gerum við ekki nema með því að jafna lífskjör í gegnum persónuafslátt, frádrátt frá sköttum, eignarskatt og margt fleira í skattalöggjöfinni til að jafna aðstöðuna í landinu.

Hvað varðar það sem ég minntist á með sérstakt byggðaráðuneyti, þá er það svo að ríkisstjórn er æðsta stjórn þjóðfélagsins hjá framkvæmdarvaldinu og þar er auðvitað oft verið að takast á um mikla peninga og ég er sannfærður um að fagvinnan væri meiri í byggðamálum og hefði verið meiri og það væri því mjög sterkt miðað við það neyðarástand sem hér ríkir, ég kalla það neyðar\-ástand, að sérstakur byggðamálaráðherra hefði kastljósið á því og héldi utan um málefnið bæði í ríkisstjórninni og í fagvinnunni út á við. Ég trúi á þá leið. Hún er farin í Noregi, í Bretlandi og hún er farin miklu víðar. Ég held að það sé mikilvægt að hugsa þetta í nýju ljósi.

Það er rétt sem sagt var að flytja ætti völdin út á land. Það þarf auðvitað að gera. Ég var á sínum tíma og er enn fylkjamaður í þeim efnum en það hefur ekki náðst fram, hvorki á Alþingi né meðal sveitarstjórnarmanna, þannig að það er auðvitað hið stóra verkefni einnig.