Stefna í byggðamálum fyrir árin 1999-2001

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 17:51:57 (4250)

1999-03-02 17:51:57# 123. lþ. 75.14 fundur 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., EKG
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[17:51]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér þarf ég ekki að orðlengja mjög um það sem felst í þessari till. til þál. um mótun nýrrar byggðastefnu. Ég fór mjög ítarlega yfir það á sínum tíma þegar mælt var fyrir tillögunni og fjallaði þá um þau efnisatriði sem þar getur að líta. Eins og allir vita á þessi tillaga sér alllanga forsögu. Mjög margir hafa komið þarna að verki, bæði núna í meðförum þingsins en ekki síður og alveg sérstaklega við undirbúningi málsins af hálfu stjórnar Byggðastofnunar.

Sú ákvörðun var tekin strax í upphafi við meðferð málsins af hálfu þeirra sem sitja í stjórn Byggðastofnunar að taka þessi mál nokkuð öðrum tökum en gert hafði verið á undanförnum árum. Í því sambandi var mikið leitað út fyrir stofnunina eftir sérfræðilegri þekkingu. Ekki það að innan stofnunarinnar væri ekki til staðar margvísleg þekking sem mikilvægt væri að byggja á heldur var það einfaldlega skoðun þeirra sem stóðu fyrir þessu og báru ábyrgð á vinnulaginu að mjög mikilvægt væri að reyna að afla sér nýrra upplýsinga vegna þess að þetta mál væri þannig vaxið að það þyrfti á því að halda að reyna kannski að varpa á það nýju ljósi. Sannleikurinn er sá að menn hafa talað mjög lengi um byggðamál án þess þó kannski að skilgreina til hlítar um hvað málið snerist og alls ekki þannig að menn reyndu að komast að því hver væri kjarni þess vanda sem við væri að glíma. Þannig lá það fyrir og kom mörgum á óvart og m.a. þeim sem hér stendur að ekki lá fyrir nein heildstæð athugun eða úttekt á því hverjar væru orsakir búseturöskunarinnar sem hefði orðið á undaförnum áratugum hér á landi.

Þess vegna varð það eitt af fyrstu verkum stjórnar Byggðastofnunar að efna til slíkrar könnunar sem Stefán Ólafsson bar ábyrgð á fyrir hönd Félagsvísindastofnunar Háskólans. Niðurstaðan var á margan hátt sláandi og varpar betra ljósi á þetta mál en við höfum nokkru sinni átt kost á. Með öðrum orðum það sem núna liggur fyrir eru upplýsingar um ástæður búferlaflutninganna, búseturöskunarinnar og þess vegna getum við einbeitt okkur að því að koma fram með tillögur sem mæta því í raun og veru sem við sjáum að gerðist og er að gerast á landsbyggðinni og er þá í raun og veru svar við því sem þar er að gerast.

Sannleikurinn er sá að þessi staða hér á landi er miklu alvarlegri en víðast hvar annars staðar. Það kom fram t.d. í athugunum sem Háskólinn á Akureyri beitti sér fyrir að búseturöskunin er miklu verri hér á landi en í nágrannalöndum okkar. Við erum með alvarlegri stöðu og þess vegna er alveg óhjákvæmilegt hjá okkur að bregðast harkalegar við en víða annars staðar. Menn spyrja hvort þetta sé ekki í lagi, hvort ástandið megi ekki bara vera svona, hvort það sé þá nokkur skaði að því þó byggðirnar tæmist og menn flytji á mölina. Ég mótmæli því algerlega, þetta er auðvitað mjög dýrkeypt fyrir þau byggðarlög sem verða fyrir þessu. Það er þjóðhagslega óhagkvæmt og dýrt fyrir þau svæði sem eru að taka á móti fólki sem flytur af landsbyggðinni. Það sjáum við á þeim tölum sem hafa verið bornar fram um það að það kosti 3--5 millj. kr. fyrir sveitarfélög á borð við Reykjavík og Kópavog að taka á móti hverjum nýjum einstaklingi sem hingað flytur og það er mjög óskynsamlegt þegar við höfum þessa uppbyggingu til staðar úti á landi.

Þær áherslur sem reynt hefur verið að leggja í byggðamálunum hér á landi upp á síðkastið hafa nokkuð komið fram í umræðunni. Ég vek athygli á því að áherslurnar sýna að menn eru að reyna að feta sig inn á nýjar leiðir og nýjar ákvarðanir til þess að bregðast við vandanum. Það er alveg rétt sem hefur komið fram að opinberar tölur sýna að þróunin hefur verið þannig á undanförnum árum að störfum hins opinbera hefur fyrst og fremst fjölgað á höfuðborgarsvæðinu og það er engin spurning um að þetta er ein meginástæðan fyrir því hvernig búsetuþróunin og búseturöskunin hefur orðið á undanförnum árum. Ríkið hefur með öðrum orðum ekki verið svona hlutlaus áhorfandi, ekki verið í því hlutverki að stýra eða koma í veg fyrir búseturöskunina heldur hefur ríkið verið bókstaflega gerandi, það hefur verið þátttakandi í þessu ferli. Það er þetta sem við hljótum sérstaklega að horfa á og það er þetta sem menn hafa verið að vekja athygli á og hefur m.a. komið fram í þeim athugunum sem Byggðastofnun hefur beitt sér fyrir og hefur gefið út á bók og kemur m.a. fram í fylgiskjölum þeim sem fylgja byggðatillögunni sem við ræðum í dag.

Þess vegna segi ég að svarið við þessum staðreyndum, við þessu ástandi, er auðvitað að móta nýja byggðastefnu, taka þessi mál öðrum tökum en menn hafa verið að gera á undanförnum áratugum og hefur sýnilega ekki haft þau áhrif sem til stóð. Ég held að við höfum núna miklu meiri forsendur en við höfðum áður til þess að taka heilbrigðar, skynsamlegar og markvissar á þessum málum, einfaldlega vegna þess að við vitum hvar við eigum að reyna að leggja áherslurnar. Það þarf að bregða skýru ljósi á þessi mál í þinginu á grundvelli þeirra upplýsinga sem við höfum.

Ef við skoðum hvaða hópar það eru, sérstaklega á landsbyggðinni, sem hyggja á búferlaflutninga, þá sýnist mér á þessum göngum og m.a. á skoðanakönnun Stefáns Ólafssonar að það séu fyrst og fremst tveir áhættuhópar hvað þetta áhrærir. Það er í fyrsta lagi fiskvinnslufólk og hins vegar það fólk sem hefur leitað sér sérfræðilegrar menntunar af einhverju tagi. Ef við tökum seinni hópinn er t.d. ljóst að eitt af því sem þetta fólk horfir til eru möguleikarnir á því að njóta stuðnings hvert af öðru. Maður sem hefur hlotið háskólamenntun gerir m.a. kröfur til þess að geta deilt kjörum, skipst á skoðunum, rætt málin við fólk sem hefur notið svipaðrar lífsreynslu. Þess vegna er mjög mikilvægt og einn hluti af þessari byggðaáætlun að reyna að styrkja samgöngusvæðin, tryggja það að menn geti búið til þjónustusvæði, atvinnusvæði, stærra atvinnusvæði, sem þarf út af fyrir sig ekkert að hafa áhrif á það að menn geta búið í sínu litla byggðarlagi ef þeir geta aðeins átt eðlileg samskipti inn á stærra svæði. Við sjáum þetta t.d. á Suðurlandsundirlendinu, við sjáum þetta í nágrenni Akureyrar, við sjáum þetta líka í uppbyggingu vegamála á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum þar sem er ekki lengur hægt að tala um þorpin í kringum Ísafjörð eða byggðirnar í kringum Patreksfjörð heldur erum við að tala um eitt svæði, atvinnusvæði, þjónustusvæði sem ættu auðvitað að styrkjast innbyrðis fyrir vikið.

Hitt atriðið sem er líka mjög mikið áhyggjuefni er staða fiskvinnslunnar og það öryggisleysi sem fiskvinnslan og fiskvinnslufólkið hefur búið við. Hér er um að ræða margslungið og erfitt mál, tengist að sjálfsögðu sjávarútvegsumræðunni og því öllu saman. Þess vegna hlýtur að vera eitt af þeim stóru viðfangsefnum sem við stöndum frammi fyrir núna þegar sú ákvörðun hefur verið tekin hér á Alþingi að taka sjávarútvegsmálin og fiskveiðistjórnarmálin til gagngerrar endurskoðunar hvernig sé að styrkja stoðir fiskvinnslunnar. Við sjáum t.d. að sú uppbygging smábátaútgerðar sem víða hefur orðið um landið hefur orðið til þess að skapa nýjar og betri forsendur fyrir fiskvinnslu.

[18:00]

Það er staðreynd að afla smábátanna er landað fyrst og fremst til vinnslu innan lands. Að vísu dreifist hann um allt land. Afli sem landað er á Vestfjörðum eða á Norðurlandi getur þess vegna farið til vinnslu allt annars staðar á landinu. Engu að síður sýna tölurnar að sá afli fer að stóru leyti til vinnslu innan lands. Við getum því sagt sem svo að einn hluti af því að styrkja stoðir landsbyggðarinnar sé að bæta rekstrarumhverfi smábátanna og efla þannig fiskvinnslu í landinu. Við sjáum, t.d. á tölum í Morgunblaðinu í dag, að á Vestfjörðum hefur kvótahlutdeildin í aflamarkskerfinu sjálfu dregist saman. Á móti kemur að hlutdeild Vestfjarða í afla og aflamagni smábáta hefur aukist. Þarna hefur að nokkru leyti tekist að byggja upp fiskveiðistjórnarkerfi utan við hið hefðbundna fiskveiðistjórnarkerfi sem komið hefur þessum landshluta að gagni. Enn þarf að huga að ýmsu í þessum efnum, ekki síst í byggðalegu ljósi.

Við sjáum að mjög víða hefur reynst erfitt að manna fiskvinnsluna. Í því sambandi eru kannski ekki til augljósar lausnir. Staða fiskvinnslunnar er á margan hátt erfið. Landvinnslan hefur lengi átt undir högg að sækja og þó betur horfi þar nú en oft áður hefur hún mátt búa við langvarandi taprekstur sem vitanlega hefur komið niður á henni. Þess vegna er einkennilegt að hugsa til þess að til skuli vera stjórnmálaöfl sem sjá vart annað ljós í myrkrinu en að leggja auknar byrðar á atvinnugreinina sem skapað hefur atvinnutækifæri á landsbyggðinni. Fiskvinnslan hefur átt sinn þátt í því að byggja upp þá atvinnustarfsemi og það mannlíf sem dafnar á landsbyggðinni.

Í þessu sambandi vildi ég vekja athygli á hugmynd sem Stefán Ólafsson, sem margoft hefur verið rætt um og vitnað í í þessari umræðu, varpaði fram í Morgunblaðsgrein á síðasta hausti. Hann sagði eðlilegt að beina skattaívilnunum í skattkerfinu fyrst og fremst til fiskvinnslufólksins til að bæta kjör þess. Hann sagði t.d. að ígildi sjómannaafsláttar, upp á 1.500 millj. kr., mundi bæta kjör landverkafólks 10 eða 20%, ég man ekki hvort heldur var. Þetta mundi hafa veruleg áhrif á það hvert fólk mundi sækja vinnu. Þetta er atriði sem menn þurfa að skoða og ræða þá í tengslum við kjarasamninga þegar að því kemur. Þetta er hins vegar býsna snúið mál sem menn ættu ekki að hrapa að en hugmynd sem menn a.m.k. ættu að hafa djörfung og dug til að ræða.

Ég nefndi áðan að Byggðastofnun hefði verið að reyna að beita sér fyrir breyttum áherslum. Við höfum kallað þetta aukið byggðaforræði. Sú stefna að byggðamálunum ætti að stjórna frá einum stað, þ.e. í Reykjavík, deila út peningum og völdum þaðan og skipuleggja aðgerðir þaðan, kann að hafa átt rétt á sér einhvern tímann en í dag svarar hún ekki kröfum hins öfluga þjóðfélags okkar. Þess vegna verður byggðastefnan að taka mið af þjóðfélagslegum breytingum, og það hafa menn gert innan vébanda Byggðastofnunar. Nú hefur verið tekin um það ákvörðun að fela starfsemi Byggðastofnunar á landsbyggðinni, t.d. á Ísafirði og Egilsstöðum, í hendur heimamönnum í atvinnuþróunarfélögum sem annast núna þessa starfsemi. Heimamenn fá í hendur ákveðið fjármagn sem þeir geta notað til að sinna þjónustustarfsemi sem Byggðastofnun hafði úti á landsbyggðinni og jafnframt, sem ekki er síður mikilvægt, rennt stoðum undir atvinnuþróunarfélögin og gert þeim kleift að takast á við ný verkefni. Þau geta aðstoðað fólk sem er að leita sér að nýjum atvinnutækifærum og fólk sem er að reyna að byggja upp hefðbundna atvinnustarfsemi, t.d. í sjávarútvegi.

Ég vil vekja sérstaka athygli á einu atriði í þessari byggðaáætlun. Hér hefur töluvert verið talað um að þar sé lítil handfesta. Það ekki alveg rétt þar sem þetta er stefnumótandi áætlun sem ætlað er að leggja línurnar ef þannig mætti að orði komast. Ég vildi nefna eitt atriði sem vissulega er handfesta í og mun skipta mjög miklu máli. Það er sú ákvörðun að beina í gegn um Byggðastofnun fjármagni í eignarhaldsfélög á landsbyggðinni sem ætlað er það hlutverk að taka þátt í uppbyggingu atvinnulífsins. Við sem búum úti á landi þekkjum að víða eru menn hikandi við að koma með fjármagn inn í atvinnufyrirtæki. Lánastofnanir á höfuðborgarsvæðinu eru hikandi við að lána til atvinnustarfsemi á landsbyggðinni nema því fylgi kvóti. Aðilar á höfuðborgarsvæðinu þekkja eðlilega ekki mjög vel til aðstæðna. Þeim finnst framandi að leggja peninga í fiskvinnsluhús á norðausturhorninu eða norðvesturhorninu eða einhvers staðar fjarri góðu gamni. Því er ekki óeðlilegt að við reynum einhvern veginn að styrkja stoðir atvinnulífsins úti á landi.

Gert er ráð fyrir að eignarhaldsfélögin fái á ári allt að 300 millj. kr. og reyndar er gert ráð fyrir því í fjárlögunum yfirstandandi árs. Þessar 300 millj. kr. eiga samt sem áður einungis að verða um 40% af eignarhaldsfélögunum þegar fram í sækir. Hér er því í raun verið að leggja grundvöll að eignarhaldsfélögum sem geta þá verið með um 700 millj. kr. á ári, 40% frá Byggðastofnun og 60% frá öðrum, einkaaðilum eða sveitarfélögum. Gott dæmi um verkefni af þessu tagi er einmitt að líta dagsins ljós austur á fjörðum. Þar eru bæði einkaaðilar í héraði og fjármálastofnanir, m.a. eru fjármálastofnanir á höfuðborgarsvæðinu allt í einu farnir að sjá möguleika á að koma inn í atvinnulífið. Þar er verið að skapa nýjan grundvöll, nýtt umhverfi sem þær geta frekar treyst sér til að koma að.

Mér sýnist, ef rétt er reiknað hjá mér, að þetta séu um 750 millj. kr. á einu ári, 3 milljarðar kr. á fjórum árum. Það munar auðvitað um minna. Ég tel að stefnumótun af þessu tagi sé miklu líklegri til árangurs en að vera að rembast við að færa til verkefni frá hinu opinbera út á land. Það hefur reynst afar erfitt og er miklu líklegra til árangurs að tryggja starfsemi eignarhaldsfélaganna þannig að þau geti teki þátt í því að hjálpa fólkinu sem býr úti á landi við að skapa ný atvinnutækifæri.

Ég vil líka vekja athygli á því að þeir sem standa í þessum ræðustól daginn út og daginn inn, vikum og mánuðum saman á hverju einasta þingi og krefjast aukinna útgjalda hins opinbera til allra skapaðra hluta, í langflestum tilvikum til hinna þörfustu verkefna, ættu nú stundum að velta fyrir sér, þegar þeir eru að kalla á 400 millj. og 500 millj. og 1.000 millj. til sjúkrahússtarfsemi og annarrar ágætrar starfsemi á höfuðborgarsvæðinu, hvaða áhrif það hefur á búsetuþróunina í landinu. Þurfa menn ekki líka að reyna að bregða hinu byggðalega ljósi á það? Er ekki eðlilegt, um leið og menn gera slíkar kröfur, að þeir átti sig á hinu byggðarlega samhengi þessara hluta, hvort ekki eigi að veita hluta af þessu fjármagni til uppbyggingar á þjóðþrifastarfsemi á landsbyggðinni. Ég tel mikilvægt að hafa þetta í huga. Eitt af því sem kemur glögglega fram í byggðaáætluninni er krafan frá þeim sem að áætluninni standa, sem ég vona að verði samþykkt, um að reynt verði að bregða byggðalegu ljósi á þær ákvarðanir sem Alþingi, ríkisstjórn og hið opinbera taka hverju sinni. Ákvörðun um uppbyggingu á einhverju sviði, t.d. velferðarmála á höfuðborgarsvæðinu, mun hafa áhrif á byggðaþróunina í landinu eins og við höfum séð.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði mér reyndar ekki að vera þetta langorður. Mig langaði að koma aðeins inn á þessi mál. Ég tel að byggðamálin séu eitthvert brýnasta verkefni íslenskra stjórnmála á þessari stundu. Það verður að segjast að að mörgu leyti hafa menn staðið hálfráðþrota frammi fyrir vandanum sem við hefur verið að glíma. Ég held að við séum nú í betra færi en oft áður til að takast á við vandamálin. Við vitum meira, kunnum meira og vitum hvar eldurinn brennur heitast. Þess vegna er mikilvægt að það takist að marka ramma sem við viljum vinna innan. Það er gert í þessari byggðaáætlun og ég bind vonir við að okkur takist með þessum nýju vinnubrögðum og starfsháttum að snúa vörn í sókn. Það ríður á miklu fyrir þjóðfélagið. Sú óheillaþróun sem verið hefur í byggðamálunum er öllum til trafala, bæði landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu.