Ferða- og dvalarkostnaður

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 16:00:51 (4308)

1999-03-03 16:00:51# 123. lþ. 77.9 fundur 456. mál: #A ferða- og dvalarkostnaður# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[16:00]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Í tengslum við kjarasamning á almennum vinnumarkaði árið 1995 var gerð eftirfarandi bókun:

,,Reglugerð um endurgreiðslur á kostnaði vegna ferða- og dvalarkostnaðar, vegna sérfræðiheimsóknar og innlagna á sjúkrahús verður endurskoðuð.``

Herra forseti. Þessi bókun var gerð vegna mikils kostnaðar fólks utan af landi sem þurft hafði að leita sér lækninga í Reykjavík. Svo virðist hins vegar að reglur hafi verið hertar þegar þeim var breytt árið 1996. Það marka ég af því að svo virðist sem kostnaður Tryggingastofnunar vegna sjúkraflutninga og ferða innan lands hafi lækkað á undanförnum árum og reynsla fólks utan af landi sem hefur þurft að leita sér lækninga bendir til hins sama. Reglurnar eru fólki óhagstæðari svo um munar þvert á það sem þeir sem undirrituðu bókunina með kjarasamningnum árið 1995 töldu sig vera að ná fram. Þeir töldu sig vera að tryggja sínu fólki betri kjör ef það veiktist og þyrfti á læknisaðstoð að halda.

Herra forseti. Ég hef heyrt dæmi um fullorðna konu utan af landi sem gekkst undir aðgerð á auga árið 1996 í Reykjavík. Tryggingastofnun greiddi ferðakostnað fyrir hana og fylgdarmann hennar. Í fyrra gekkst þessi sama kona undir sams konar aðgerð á hinu auganu og í það skiptið, þ.e. núna, var henni hafnað um ferðastyrk.

Ég hef líka heyrt dæmi um karlmann af landsbyggðinni sem fékk alvarlegt brjósklos og var sendur til Reykjavíkur í aðgerð sér og fylgdarmanni að kostnaðarlausu. Eftir aðgerðina var hann síðan sendur heim en þá brá svo við að Tryggingastofnun hafnaði erindi hans um greiðslu á fargjaldinu.

Þriðja dæmið vil ég tilgreina um móður sem á síðasta ári fékk alvarlegt fæðingarþunglyndi sem ekki var hægt að takast á við í hennar heimabyggð og varð hún að vera undir læknishendi í Reykjavík í nokkrar vikur með tilheyrandi kostnaði. Beiðni hennar um þátttöku Tryggingastofnunar í ferðakostnaði var hafnað.

Í ljósi þessa og þess að bókun með kjarasamningi er hluti kjarasamnings og við hana á að standa eins og önnur ákvæði, hef ég lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. á þskj. 754:

1. Hefur endurskoðun á reglugerð um endurgreiðslur á ferða- og dvalarkostnaði vegna sérfræðiheimsókna og innlagna á sjúkrahús, sbr. bókun í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði frá febrúar 1995, leitt til breyttrar kostnaðarþátttöku Tryggingastofnunar?

2. Er það mat ráðherra að með ráðstöfunum sem gerðar hafa verið sé komið nægjanlega til móts við væntingar sem landsbyggðarfólk batt við fyrrgreinda bókun?