Skortur á hjúkrunarfræðingum

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 18:03:54 (4312)

1999-03-03 18:03:54# 123. lþ. 77.11 fundur 491. mál: #A skortur á hjúkrunarfræðingum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[18:03]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur lagt fram fyrirspurn um skort á hjúkrunarfræðingum. Fyrri spurning hv. þm. er: ,,Til hvaða ráðstafana hyggst ráðherra grípa þar sem fram hefur komið að á þriðja hundrað hjúkrunarfræðinga vantar til starfa?``

Að undanförnu hefur ítrekað verið á það bent, ekki síst af hálfu stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík, að mjög mikill skortur sé nú á hjúkrunarfræðingum til starfa. Vegna þessa vanda hef ég falið nefnd undir forustu Vilborgar Ingólfsdóttur hjá landlæknisembættinu að skoða til hlítar í fyrsta lagi hve vandinn sem við er að glíma er stór, þ.e. hve mikill skortur er raunverulega á hjúkrunarfræðingum, og í öðru lagi að skoða hverjar þær ástæður eru taldar helstar sem valda þessum viðvarandi og vaxandi skorti á hjúkrunarfræðingum. Í þriðja lagi að gera tillögur til úrbóta sem geti haft áhrif á þennan vanda bæði til skemmri tíma og þegar til lengri tíma er litið.

Hv. þm. spyr í öðru lagi hvort ráðherra telji að úr brýnustu þörf megi bæta með aukinni menntun sjúkraliða. Ráðuneytinu hafa borist ábendingar um að auka mætti menntun sjúkraliða með það í huga að fela þeim aukin störf í heilbrigðisþjónustunni. Slík ábending kom síðast fram hjá framkvæmdastjórum hjúkrunarheimilanna í höfuðborginni og var komið á framfæri við nefnd þá er ég gat um fyrr í svari mínu.

Ég tel sjálfsagt að skoða hvort bæta megi menntun sjúkraliða með þessi markmið í huga. Þess ber þó að geta að skorturinn á hjúkrunarfræðingum, svo mikill sem hann er, er þó ekki jafnmikill og skortur á menntuðum sjúkraliðum til þeirra starfa sem þeir vinna við í dag.

Á það skal einnig bent að verulegar breytingar hafa verið gerðar á menntun sjúkraliða á undanförnum árum til þess að auka aðsókn í námið og tryggja að sjúkraliðar séu sem best undir störfin búnir, en mikið brottfall hefur verið úr sjúkraliðastéttinni að undanförnu.