Áfengiskaupaaldur

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 19:15:59 (4344)

1999-03-03 19:15:59# 123. lþ. 77.17 fundur 552. mál: #A áfengiskaupaaldur# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[19:15]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég get endurtekið það að mér þykir leitt að það skuli hafa dregist að þessi nefnd var skipuð. Það var leitað eftir tilnefningum í hana. Það var ekki gert fyrr en eftir að þing kom saman.

Ég er á hinn bóginn þeirrar skoðunar að það hefði e.t.v. ekki breytt öllu þó að nefndin hefði verið sett á fót fyrr um sumarið. Ég veit að hv. þm. þekkir það af sínum ráðherraferli að nefndarstörf af þessu tagi verða oft ódrjúg yfir sumarmánuði. Ég er því ekki viss um að jafnvel þó nefndin hefði verið skipuð fyrr, sem hefði vissulega verið rétt og betra, þá hefði það skilað mikið skjótari niðurstöðu.

Í ljósi aðstæðna og eðlis málsins þá get ég alveg gengið úr þessum ræðustóli með ósk um að þingmenn sýni því skilning að nefndin fái nauðsynlegan tíma til að kanna málið áður en þingið tekur ákvarðanir um að gera breytingar á þessu mikilvæga málefni.