Samstarf mennta- og sjúkrastofnana til að bæta úr læknaskorti

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 19:42:21 (4354)

1999-03-03 19:42:21# 123. lþ. 77.18 fundur 530. mál: #A samstarf mennta- og sjúkrastofnana til að bæta úr læknaskorti# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[19:42]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Aðalatriðið í þessu máli, eins og það er núna og fram hefur komið hjá hv. fyrirspyrjanda, er að við þurfum að þoka því áfram. Það þarf að ná öllum þráðum saman. Hv. þm. Katrín Fjeldsted benti á hóp sem sjálfsagt er fyrir þá aðila sem að þessu máli vinna að ræða við því að þarna er um samræmingarstarf að ræða. Þegar farið er út á þessar nýju brautir þarf í senn að tryggja góðar, faglegar forsendur og einnig samstarf við alla sem hafa þekkingu. Eins og hv. þm. Tómas Ingi Olrich nefndi, þá nota læknar núna fjartækni við uppskurði og alls konar upplýsingamiðlun. Hvers vegna skyldi hún ekki líka vera notuð til þess að mennta og þjálfa fólk og skipuleggja nám þannig?

Ég tel að Háskólinn á Akureyri hafi, eins og oft áður, sýnt þarna lofsvert frumkvæði og hann eigi að hafa forustu um þetta þróunarstarf. En það er óhjákvæmilegt að náin samvinna sé á milli Háskóla Íslands þar sem læknadeildin er, Háskólans á Akureyri og þessara stofnana allra til þess að við náum utan um málið og það komist heilt í höfn.