Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 13:03:43 (4433)

1999-03-08 13:03:43# 123. lþ. 80.25 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv. +, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 123. lþ.

[13:03]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Vegna athugasemdar sem hv. 4. þm. Norðurl. e. gerði hér áðan vil ég taka fram að nefnd sú, sem skipuð var að tilhlutan þeirra sem störfuðu í nefnd um breytta kjördæmaskipan, er um það bil að skila af sér skýrslum og tillögum. Hún hefur náð samkomulagi en á eftir að ganga formlega frá skjalinu. Ég hef haft tækifæri til að fylgjast með störfum nefndarinnar á starfstíma hennar og gert ríkisstjórninni óformlega grein fyrir því í hvaða átt tillögur nefndarinnar gengju. Það er stuðningur við þann málatilbúnað í ríkisstjórninni.

Að því leyti sem tillögur nefndarinnar munu gera kröfu til að afstaða sé tekin til veitinga fjármuna í tiltekna þætti, t.d. í vegaframkvæmdir, mundi ríkisstjórnin afla slíkra heimilda og ábyrgjast pólitískt að slíkar tillögur mættu ná fram að ganga. Þegar hafður er í huga þessi skilningur ríkisstjórnarinnar og jafnframt hinn víðtæki stuðningur sem við nefndarstarfið er í þinginu, þar sem allir þingflokkar tilnefndu í nefnd þessa og innan hennar er góð samstaða, tel ég tryggt að þær viljayfirlýsingar, hugmyndir og tillögur sem þar koma fram hljóti brautargengi innan þeirra tímamarka sem nefndin sjálf setur sér.