Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 14:21:07 (4501)

1999-03-09 14:21:07# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[14:21]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að þetta nál. á heima í brandarabankanum hjá mér af því ég get alveg ómögulega skilið það. Hér kemur fram að minni hlutinn tekur undir það viðhorf að leggja beri áherslu á að nýta allar auðlindir sjávarins, þar með talda hvalastofna við Ísland. Þetta hljómar allt vel. En hvað kemur svo fram í nál. eftir það? Hvalveiðar eru rakkaðar niður skipulega í mörgum liðum. Meðal annars kemur þar fram að minni hlutinn vekur athygli á því að það sé með öllu óljóst hvaða efnahagslegi ávinningur felist í hvalveiðum. Og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, framsögumaður minni hlutans, kemur hér og segir ítrekað að um mikla hagsmuni sé að tefla, að þeir séu settir í verulegt uppnám, það sé verið að tefla verulegum hagsmunum í uppnám og það ætti að gæta meiri varúðar. Ég spyr hvað er verið að fara hér?

Svo er klykkt út í lok þessa álits minni hlutans að það sé ábyrgðarhluti að afgreiða málið á þennan hátt. Ég sé hér gott tilefni til að spyrja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson: Hvað er verið að fara í þessu nál.? Er fylkingin klofin um allar jarðir, með og á móti hvalveiðum, eða hvað fer hér fram? Hvað ætla hv. þingmenn Lúðvík Bergvinsson og Svanfríður Jónasdóttir sér að gera? Styðja þau hvalveiðar eða ekki? Þetta nál. er svo loðið að ekki er hægt að ráða af því, og því síður af ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, hver sé stefna Samfylkingarinnar gagnvart hvalveiðum. Það er sagt: Við viljum nýta hvalastofnana eins og aðrar auðlindir. En svo eru hvalveiðar rakkaðar niður skipulega í öllu nál.