Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 14:25:24 (4503)

1999-03-09 14:25:24# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[14:25]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvalveiðar eru líka grafalvarlegt mál fyrir mér. En þetta nál. er eins og brandari. Það segir ekki neitt. Það segir: Við viljum hefja hvalveiðar. En svo þar segir líka: Við viljum ekki hefja hvalveiðar. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kemur með þá afsökun að óeðlilegt sé að lýsa yfir stríði, eins og hann telur að tillaga meiri hlutans hljómi upp á, án þess að kynna málið.

Ég vil benda hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni á að í tillögu meiri hluta sjútvn. segir einmitt, með leyfi forseta:

,,Alþingi felur ríkisstjórninni að undirbúa hvalveiðar, meðal annars með því að kynna málstað og sjónarmið Íslendinga meðal viðskiptaþjóða okkar. Undirbúningur miði að því að veiðar geti hafist sem fyrst. Kostnaður við kynninguna verði greiddur úr ríkissjóði. Öllu kynningarstarfi verði flýtt svo sem auðið er.``

Ég ítreka spurningu mína: Hvort styður fylkingin hvalveiðar eða ekki? Nál. gefur ekkert til kynna.