Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 14:58:32 (4514)

1999-03-09 14:58:32# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[14:58]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að verða við vinsamlegum tilmælum hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar um að svara nánar nokkrum atriðum hér. Afstaða mín til þess hvort hvalveiðarnar hefðu áhrif á hvalastofnana var nú einföld. Ég benti einfaldlega á að þær hvalveiðar sem verið er að tala um væru svo litlar að þær muni ekki koma til með að hafa nein áhrif á hvalastofninn. Í raun fannst mér ekki koma fram nein athugasemd við það.

Hvalveiðar og hvalaskoðun fara ekki saman. Ég sagði einungis að þetta væri álitamál. Sumir þeir sem starfrækja hvalaskoðun telja að þetta gangi mjög gegn hagsmunum sínum. Ég þekki hins vegar þá í þeim rekstri sem telja að kannski mætti láta þessar atvinnugreinar lifa saman. Engu að síður er þarna um óvissuatriði að ræða sem rétt er að hafa í huga.

Norðmönnum hefur ekki tekist að selja hvalaafurðir sínar, hvernig sem á því stendur. Hins vegar er rétt að það er ekki hægt að sýna fram á að Norðmenn hafi beðið hnekki af hvalveiðum. Ég tek undir það. Sumir hafa bent á að reynsla þeirra hafi í raun sýnt fram á áhrif á ferðaþjónustu en það orkar tvímælis.

[15:00]

Ég er hins vegar ekki sammála því að við getum heimfært reynslu Norðmanna upp á okkar aðstæður. Aðstæður okkar eru öðruvísi. Efnahagslíf okkar er allt annað heldur en Noregs. Við erum miklu háðari fiskveiðum en þeir. Við erum þar af leiðandi miklu háðari mörkuðum erlendis og viðhorfi kaupenda.

Ég tek það skýrt fram að ég tek undir það að ekki er hægt að sýna fram á þetta með neinum óyggjandi rökum. Við verðum því að taka afstöðu til málsins á grunni þess hvað við teljum að gæti komið upp, hvaða áhættu við teljum að við séum að taka og það er einmitt á þeim grundvelli sem ég tek afstöðu í málinu.