Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 15:00:38 (4515)

1999-03-09 15:00:38# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[15:00]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það rétt að það þyrfti miklu meiri hvalveiðar ef stöðva ætti afrán hvalanna á fiskstofnum okkar. En þetta er þó fyrsta skrefið, að hefja veiðarnar. Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar var 350 hvalir í ár og eitthvað munar nú líklega um það sem þeir éta. Hafrannsóknastofnun hefur bent á að hvalirnir við Ísland éti rúmar 2 millj. tonna á ári, bara úr þeim fiskstofnum sem við erum að sækja í, eða svipað og heldur meira en við Íslendingar erum að veiða. Við hljótum að taka mark á hinum færu vísindamönnum okkar. Allt annað er óábyrgt.

Varðandi hvalaskoðun og hvalveiðar þá hljótum við náttúrlega að líta á reynslu Norðmanna sem er alveg ótvíræð og sú að þetta hefur ekki haft nokkur einustu áhrif á þeirra hvalaskoðun. Þegar þeir hófu hvalveiðar fóru um 4--5 þús. manns á ári í hvalaskoðun. Það hefur aukist ár frá ári síðan og var komið yfir 20 þús. á síðasta ári. Á sama tíma hafa Norðmenn aukið hvalveiðar sínar jafnt og þétt.

Hvað það varðar að Norðmönnum hafi ekki tekist að selja sínar hvalaafurðir, sem þýðir væntanlega að okkur takist það ekki heldur, þá er það bara ekki alveg rétt. Norðmenn tóku hins vegar ákvörðun um að flytja ekki út hvalaafurðir að svo stöddu. Ég minni á að þeim bauðst að selja hvalaafurðir til Íslands fyrir rúmu ári. Kaupmaðurinn í Nóatúni ætlaði að kaupa af þeim rengi en fékk það ekki. Norðmennirnir settu bann á útflutninginn. Þetta er ekki af því að þeir geti ekki selt hann, heldur af því þeir tóku þessa ákvörðun. Ég trúi a.m.k. þeim mönnum sem hyggja á þessar veiðar og telja að þeir geti selt afurðirnar.