Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 16:07:26 (4535)

1999-03-09 16:07:26# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[16:07]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að lesa upp úr þeim gögnum sem Sjávarnytjar sendu þingmönnum. Það er gott og nauðsynlegt að fara í sagnfræðina í þessu máli. Ég gat ekki betur heyrt á málflutningi hv. þm. en hún væri fylgjandi þeirri tillögu sem meiri hlutinn hefur lagt fram. Það var hins vegar voðalega erfitt að greina rökin fyrir því að fara þessa leið. Ég vil því beina þeirri spurningu til hv. þm. hvort hún hafi í farteskinu einhver rök, einhverja vitneskju sem t.d. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem hefur goldið varhug við þessum veiðum, hefur ekki. Veit hún eitthvað varðandi þetta sem Þýsk-íslenska verslunarfélagið, Amerísk-íslenska verslunarfélagið í New York, ferðamálasamtök og aðrir vita ekki? Allir þessir aðilar eru smeykir við að fara þá leið sem hér er lögð til.

Ég held að það væri gott og upplýsandi fyrir þessa umræðu ef hv. þm. kæmi og upplýsti okkur hin um það, hvers vegna þessir aðilar eru allir á villigötum, þá líka væntanlega minni hlutinn og hvað gerir það að verkum að hv. þm. vill fara þessa leið án þess að gera nokkrar athugasemdir við það.