Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 17:18:29 (4541)

1999-03-09 17:18:29# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[17:18]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur var tíðrætt um þá sem hefðu veitt umsögn um málið. Mig langar aðeins að rifja upp og ég held ég muni það rétt, þegar ég skoða í huga mínum svörin frá þeim er í sjávarútvegi starfa eftir að hafa verið inntir eftir skoðun þeirra á þessu máli, að aðeins Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hafi lagst gegn því að veiðar á hval skyldu hafnar.

Þá vakti einnig athygli mína að þeir sem eiga fyrirtækið SH hvöttu eindregið til þess að hefja hvalveiðar. Þeir biðja um að hvalveiðar verði hafnar. Útvegsmenn um allt land, LÍÚ, Farmanna- og fiskimannasambandið, Sjómannasambandið, vélstjórafélögin, verkalýðsfélögin vítt og breitt um landið o.s.frv., allir þessir aðilar óska þess að hvalveiðar hefjist.

Mig langar til að spyrja hv. þm., vegna þess hvernig hún talaði um þessi mál: Finnist henni ekki dálítið sérstakt að við skulum fá bréf frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna sem varar við hvalveiðum, en að þeir sem eigi fyrirtækið biðji um að hvalveiðarnar verði hafnar? Það er ekki mikill samhljómur í svona málflutningi.