Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 17:25:35 (4546)

1999-03-09 17:25:35# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, KH
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[17:25]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það eru fyrst og fremst tvær tegundir dýra sem raska verulega ró hv. þm. og valda með nokkuð reglulegu millibili uppnámi og ýfingum milli manna. Alltaf snýst málið um að drepa þessi dýr, fækka þeim. Þarna á ég annars vegar við hina eðlu skepnu refinn, þann ferfætta að sjálfsögðu. Í lok síðasta löggjafarþings stóð til að afgreiða tillögu þess efnis að heimilt yrði að skjóta ref í friðlandinu á Hornströndum. Reyndar er enn slík tillaga í umhvn., sem sennilega verður þó ekki afgreidd á þessu þingi. Vonandi gefst því enn ráðrúm til að sinna nauðsynlegum rannsóknum á dýralífi í friðlandinu Hornströndum, einkum refnum, lífsháttum hans og þeim áhrifum sem hann hefur í lífríkinu þar.

Hins vegar er það hvalurinn sem hér er kominn á dagskrá öðru sinni á þessu þingi. 1. umr. var í nóvember sl. og nú hefur meiri hluti sjútvn. náð samstöðu um afgreiðslu málsins eftir miklar umræður í nefndinni. Þjóðin hefur fylgst með gangi mála og raunar hefur umræðan borist víða um heim því það er ekkert einkamál okkar Íslendinga hvort við veiðum hval eða ekki. Svo er ekki, bæði vegna þess að samkvæmt hafréttarsáttmálanum ber að hafa alþjóðlegt samráð í þessu efni og svo vegna hins að ákvörðun um hvalveiðar getur haft afdrifaríkar afleiðingar á samskipti okkar við okkar helstu samstarfs- og viðskiptaþjóðir.

Það er umhugsunarvert hvernig þessa tillögu ber að höndum. Ellefu stjórnarþingmenn leggja hana fram ásamt einum úr stjórnarandstöðu. Reyndar voru hlutföllin upphaflega tíu stjórnarliðar og tveir úr stjórnarandstöðu en annar þeirra stjórnarandstæðinga skautaði yfir í stjórnarliðið fyrir síðustu jól.

Þessir þingmenn fluttu þessa tillögu um að hvalveiðar skyldu hafnar þegar á þessu ári. Í raun voru ekki tiltekin önnur skilyrði fyrir því en að veiddar yrðu tvær tegundir innan þeirra marka sem Hafrannsóknastofnun legði til. Þar með má með nokkrum sanni segja að þeir hafi tekið málið úr höndum ráðherra, sem sérstakur starfshópur hafði falið að vinna að málinu á ákveðnum forsendum.

Starfshópurinn skilaði áliti og tillögum í febrúar fyrir tveimur árum. Þar setti hópurinn fram tillögur í átta liðum um hverjar ættu að vera næstu aðgerðir í málunum og í hvaða röð. Fyrsta atriðið var að leitað yrði eftir pólitískri samstöðu um að afgreiða á Alþingi ályktun um að hefja nýtingu hvalastofna hér við land hið fyrsta og um að ríkisstjórninni skyldi falið að undirbúa það.

[17:30]

Nú veit ég ekki hversu langt var gengið af hálfu hv. flutningsmanna í því að leita eftir pólitískri samstöðu. Ég verð a.m.k. ekki vör við það en skal ekki um það segja hvort það hefði tekist, a.m.k. ekki á þeim nótum sem sú tillaga var orðuð sem var lögð hér fram.

Ýmislegt fleira kom fram í tillögum þessa hóps sem skipti talsverðu máli og hefði átt að taka tillit til við undirbúning þess að hvalveiðar yrðu hafnar ef það hefði orðið niðurstaðan en minna hefur orðið úr framkvæmdum. Þó má segja að í framhaldi af þessu starfi og niðurstöðu nefndarinnar ákvað sjútvrh. að útvíkka nefndina, stækka hana, skipa hana fulltrúum allra þáverandi þingflokka á Alþingi og fela þeirri nefnd að fylgjast áfram með gangi mála. Svo vill til að sú sem hér stendur var einn þeirra fulltrúa sem hlotnaðist sá heiður að bætast í þennan merka hóp. Er skemmst frá því að segja að starf nefndarinnar nær varla máli. Hún mun hafa hist einu sinni svo ég a.m.k. hafi verið kölluð til og það er allt starfið á því eina og hálfa ári eða svo sem liðið er síðan ég var skipuð í nefndina. Það segir kannski nokkuð um raunverulegan áhuga og vilja stjórnvalda á því að hrinda málinu yfir á eitthvert framkvæmdastig.

Nú má kannski segja sem svo að einmitt þess vegna hafi verið eðlilegt að þingmenn reyndu með þessum tillöguflutningi að þrýsta á framkvæmdarvaldið þar sem þeim hafi þótt það fylgja linkulega eftir þessu hjartans máli þeirra.

Sannarlega er ástæða fyrir tregðu stjórnvalda til að stíga það skref að heimila hvalveiðar að nýju, jafnvel í litlum mæli. Fyrir því er sannarlega ástæða og það fleiri en ein og fleiri en tvær.

Það er reyndar svo að nokkuð hefur verið aðhafst í þessu máli, a.m.k. ef marka má þær upplýsingar sem við fengum á þeim eina fundi sem nefndin sat þar sem við fengum upplýsingar um að fulltrúar ríkisstjórnarinnar hefðu farið eitthvað um heiminn og reynt að kynna málstað Íslendinga, skýra málstaðinn og reyna að snúa áliti yfirvalda annarra landa sem þeir höfðu samband við. Þeir komust vitanlega að þeirri niðurstöðu að það væri býsna stórt verkefni og erfitt og álitamál að það svaraði kostnaði að vinna það. Ég held að það sé einfaldlega niðurstaðan sem menn hafi komist að í þessu efni.

Við erum að tala um geysilega mikla hagsmuni og það vita það allir að með því að hefja hvalveiðar værum við að setja mikla hagsmuni í hættu fyrir lítinn ávinning, jafnvel engan. Jafnvel með því einu að Alþingi samþykkti yfirlýsingu eða þá tillögu sem er um að ræða þess efnis að við ætlum að hefja hvalveiðar, jafnvel með því einu værum við að hætta meiri hagsmunum fyrir minni. Það er skoðun mín.

Þetta er ekkert einfalt mál, herra forseti. Menn geta ekki bara barið sér á brjóst og sagt að auðvitað séu Íslendingar sjálfstæð þjóð og láti ekki útlendinga segja sér fyrir verkum hvað þeir megi veiða og hvað ekki. Málið er ekki svona einfalt. Við erum nefnilega ekki ein í heiminum þótt svo mætti stundum ætla að einhverjir telji að svo sé. Við fáum um þrjá fjórðu hluta útflutningstekna okkar fyrir sjávarafurðir og ferðaþjónustu en það eru einmitt þessar atvinnugreinar sem eru í mestri hættu. Það er hins vegar alveg óvíst og raunar ólíklegt að við gætum hagnast á hvalveiðum svo nokkru nemi. Við getum ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að við höfum ekki umheiminn með okkur í þessu máli og það vill bara svo til að við þurfum á umheiminum að halda. Við þurfum í vaxandi mæli á umheiminum að halda, ekki bara á sviði viðskipta, heldur ekki síður og í vaxandi mæli á sviði umhverfismála og þar liggja kannski okkar stærstu hagsmunir í þessu efni. Mengun virðir engin landamæri er oft sagt, og okkur er gríðarlega mikilvægt, og ekki bara mikilvægt heldur nauðsynlegt að eiga samstarf við aðrar þjóðir um aðgerðir til að vernda bæði loft og haf gegn mengun af ýmsu tagi.

Við þekkjum hvernig hefur verið haldið á málstað okkar í þeim samningum sem unnið hefur verið að í sambandi við loftslagsbreytingar. Mætti hafa um það langt mál sem ég ætla þó ekki að gera nema að því leyti að ég tel að framganga ráðamanna í því efni hafi orðið okkur álitshnekkir sem við höfum í rauninni ekki efni á.

Að því er varðar mengun hafsins hafa fulltrúar okkar staðið sig mjög vel að mínum dómi. Þeir hafa staðið sig þar mjög vel, haldið fast og vel á málum. Þar eru á ferðinni afar mikilvægir hagsmunir og brýnt að ekkert skyggi á málstað okkar í því efni. Þetta er stærsta og mikilvægasta áhyggjuefnið að mínu mati þegar reynt er að vega og meta áhrif þess að hefja hvalveiðar í einhverjum mæli. Auðvitað er það satt sem hefur margsinnis komið fram í umræðunum í dag að aðeins er um mat að ræða og menn hafa misjafnar forsendur til þess að draga ályktanir í þessu efni. Alltaf er erfitt að spá um framtíðina var sagt og það gildir auðvitað um þetta en við höfum ýmsar forsendur að byggja á.

Rétt er að taka fram að ég er sammála því að hvalastofnar hér við land þola einhverja veiði. Þá er ég fyrst og fremst að tala um hrefnuna. Það er ekki svo að ég telji að hvalastofnar hér við land séu í hættu vegna ofveiði, þeir séu í útrýmingarhættu eða eitthvað slíkt. Það er ekki málið. En ég er fyrst og fremst að tala um hrefnuna sem ýmislegt er vitað um og hún þolir áreiðanlega veiði en það er bara ein hlið málsins.

Önnur er t.d. hvað á að gera við aflann, hverjum á að selja kjötið? Hverjir eiga að neyta kjötsins? Talsmenn hvalveiða gera mjög lítið úr þessum spurningum og segja að það komi bara í ljós þegar farið er að veiða, það sé bara mál þeirra sem eiga að selja kjötið. En þá er bara skaðinn skeður, herra forseti. Áreiðanlega selst eitthvað af hrefnukjöti innan lands og það vill svo til að það er ansi oft hægt að fá hrefnukjöt í búðum hér á landi hvernig sem á því stendur svo að það er ekki svo að hrefna sé alls ekki veidd á Íslandi. En það er ekki stór markaður enda vantar okkur ekki kjöt. Okkur vantar ekki kjöt hér innan lands. Við eigum fullt í fangi með að torga öllum öðrum tegundum kjöts sem framleiddar eru í landinu og varla ástæða til að þjarma meira að sauðfjárbændum en gert hefur verið. Ætli þeim kæmi ekki bara betur að við værum ekki að bæta enn á tegundir kjöts á innanlandsmarkaði? Umheimurinn bíður ekki eftir hvalkjöti. Ég held að það megi fullyrða. Hann bíður ekki eftir hvalkjöti frá Íslandi, það er alveg morgunljóst.

Menn hafa verið að ala á draumum um útflutning á hvalkjöti og hugsanlegum útflutningsverðmætum, jafnvel upp á einhverja milljarða, 2 milljarða, ef ég man rétt úr fyrri umræðum um þetta mál. Einhvern tíma heyrðist líka talað um 200 störf á ársgrunni en það er bara reikningsdæmi sem á meira skylt við draumóra en raunsæi. Ég held að ekki sé nokkur leið að rökstyðja það eða nokkur líkindi til þess að þær tölur eigi við raunveruleika að styðjast. Norðmenn hafa ekki getað selt hvalkjöt til útlanda eða ekki viljað láta á það reyna og birgðir hlaðast upp hjá þeim þótt veiðin sé enn takmörkuð. Ég veit reyndar ekki hvernig það mál stendur núna en þeir hafa kosið að fara mjög varlega og eru þeir þó í allt annarri stöðu en við Íslendingar. Þeir eru aðilar að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Þetta er aðeins örlítill hluti af atvinnulífi þeirra og útflutningstekjum ef út í það væri farið þannig að þeirra staða er allt, allt önnur en okkar. Það er alrangt að hægt sé að bera stöðu okkar saman við stöðu Norðmanna.

Það eru harla lítil líkindi til þess að Japanar vilji hætta öðrum meiri hagsmunum í viðskiptum við Bandaríkjamenn með því að kaupa kjöt héðan. Bretar eru mjög staðfastir gegn hvalveiðum, Þjóðverjar sömuleiðis. Ég minnist þess t.d. að ég fór á fund í breska utanrrn. fyrir þremur árum ásamt öðrum íslenskum þingmönnum og þar viðurkenndu embættismenn að vissulega væru vísindalegar forsendur fyrir því að veiða hvali en hvað sem því liði væri almenningsálitið eftir og þeir voru ekki bjartsýnir á að það svaraði kostnaði eða fyrirhöfn að fara að reyna að breyta því. Það mundi verða allt of mikið mál til þess að menn væru líklegir til að standa í því. Ætla menn virkilega að skella skollaeyrum við þessum sjónarmiðum?

Stóra spurningin í málinu er auðvitað sú hvort sá litli markaður sem fyndist hugsanlega erlendis fyrir hvalkjöt skipti meira máli fyrir þjóðarbúið en markaður fyrir aðrar afurðir sjávarafurða sem væri hugsanlega stefnt í voða. Við erum ekki að tala um eitthvað óljóst í þessu efni því að það hafa komið fram fullyrðingar og viðvaranir erlendis frá sem við hljótum að taka mark á. Við erum ekki bara að tala um markaði fyrir matvæli heldur einnig á sviði ferðaþjónustu og þar eru engir smávegis hagsmunir í húfi. Hv. síðasti ræðumaður fór mjög rækilega yfir það og vitnaði til kannana í þessu efni. Vafalaust geta allir þingmenn lýst dæmum um að haft hafi verið samband við þingmenn og menn lýst áhyggjum sínum og viðhorfum, bæði erlendir aðilar og innlendir, um þetta efni. Undanfarnar vikur hefur verið lítið lát á viðvörunum úr þeim geira atvinnulífsins.

[17:45]

Ég var í Bandaríkjunum í haust og ekki fór á milli mála hver viðhorf hagsmunasamtaka bæði í sjávarútvegi og ferðaþjónustu eru þar, þar á ég við íslensk fyrirtæki og íslenska aðila sem sinna þeim málefnum á erlendri grundu. Menn hreinlega biðja til æðri máttarvalda að þingheimur láti ekki annað eins henda sig og það sem hér er nú til umræðu, þ.e. að samþykkja tillögu um að hefja hvalveiðar. Þeir eru ekki í minnsta vafa um að jafnvel aðeins slík samþykkt hefði gríðarleg áhrif og gæti jafnvel kippt stoðum undan markaðsstarfi þeirra, hvað þá ef alvara væri gerð úr slíkri samþykkt og hvalveiðar hafnar af fullum krafti.

Ég tók eftir því að hv. formaður utanrmn. og núverandi formaður Ferðamálaráðs skilur þessi sjónarmið mjög vel. Ég hlustaði á ræðu hans af mikilli athygli. Þar komu sannarlega fram þær áhyggjur sem við höfum fengið að heyra úr þessum geira atvinnulífsins og ég tek í einu og öllu undir áhyggjur hans sem hann lýsti mjög vel. Hann fór vel yfir það mál í ræðu sinni áðan.

Nokkuð hefur einmitt verið minnt á hugsanleg áhrif hvalveiða á eina af nýjustu hliðargreinum ferðaþjónustunnar, hvalaskoðun, sem er í örum vexti og þróun og væri skaði ef úr henni drægi. Ég er reyndar alls ekki þeirrar skoðunar að hvalaskoðun legðist af. Mér dettur ekki í hug að hvalaskoðun legðist af né að ferðaþjónusta legðist af í landinu þótt hvalveiðar hæfust. Það hvarflar ekki að mér og það er auðvitað alrangt að stilla hlutunum þannig upp. Ég held að hvalaskoðun héldi áfram þótt e.t.v. drægi eitthvað úr henni, sérstaklega ef menn hefðu vit á því að afmarka sérstök svæði fyrir hvora grein fyrir sig þannig að ekki væri verið að stunda hvalveiðar t.d. í grennd við helstu hvalaskoðunarsvæðin við Ísland. En ég er í litlum vafa um að hvalveiðar hefðu áhrif og þar ber ég fyrir mig álit fagmanna á þessu sviði.

Breskur sérfræðingur í þessu efni segir að Ísland hafi algera sérstöðu þegar um hvalaskoðun er að ræða, hér sé í rauninni Mekka hvalaskoðara. M.a. hrífast menn mjög af spekt hrefnunnar sem virðist harla óhrædd við hvalaskoðunarbáta. Hún er forvitin og óhrædd og kemur alveg upp að bátunum, jafnvel svo að menn þurfa aðeins að hafa varann á og kunnáttumenn óttast að það breytist ef veiðar yrðu hafnar, hrefnan yrði þá vör um sig og tæki að óttast manninn. Ég veit ekkert um þetta. Ég er aðeins að vitna til þess sem fagmenn segja og þeir sem hafa stundað hvalaskoðun og hafa atvinnu af því að sýna ferðamönnum, innlendum sem erlendum, hvali. Þessi grein hefur verið í alveg ótrúlega örum vexti og er mjög skemmtileg viðbót við afþreyingarmöguleika í ferðaþjónustu. Það er mjög brýnt að stefna ekki þróun þeirrar greinar í voða vegna þess að hún gefur svo sannarlega tekjur. Það má færa alveg jafngild rök fyrir því að hún færi okkur tekjur eins og þegar menn slá fram tölum um 1 eða 2 milljarða tekjur af hvalveiðum. Ég vil því vara mjög við því að hagsmunum þessarar hliðargreinar ferðaþjónustunnar sé stefnt í hættu.

Svo er loks eitt atriði, herra forseti. Þeirri fullyrðingu er haldið á lofti að hvalir séu í harðri samkeppni við okkur um fiskinn í sjónum, þeir séu hreinlega að éta okkur út á gaddinn. Enginn neitar því að hvalir éta fisk auk annars sjávarfangs og hluti af fæðu hvala er fiskur sem við veiðum. En málið er auðvitað að hvalir eru hluti af flóknu vistkerfi í sjónum þar sem hver étur annan og ekki er hægt að fullyrða að sá fiskur sem hvalir innbyrða sé allur tapaður fiskveiðiafli.

Áðan var í umræðunni sagt eitthvað á þá leið að það gengi auðvitað ekki að veiða bara einn fiskstofn eða einn hluta af lífkerfi sjávarins, það yrði að veiða allt saman. En hamingjan góða, það vantar nú ansi mikið á að við nýtum allt það sem í sjónum er að finna og við erum stöðugt að breyta um áherslur í því efni. Ekki eru mjög mörg ár síðan við fórum að veiða rækju, 20--30 ár, þannig að við erum alltaf að breyta til í þessu efni og erum alls ekki komin að nokkrum endimörkum þess, trúi ég.

Nú hafa hvalveiðar legið niðri í tæpa tvo áratugi og hvölum hefur fjölgað nokkuð, en um leið hafa orðið breytingar á ýmsum fiskstofnum, bæði til hins verra og betra. Til dæmis hefur þorskurinn verið að eflast og kannski er eitthvert samhengi í því og þeirri staðreynd að rækjunni hefur hrakað því að við erum að keppa við þorskinn um rækjuna m.a. Það mun mála sannast að það er fyrst og fremst aukin tækni sem þrengir að fiskstofnunum og þá tækni nýtum við m.a. til þess að veiða okkur til tekna vænan skerf af fæðu okkar dýrmæta þorsks. Því hljóta menn að sjá og viðurkenna að sú röksemd að við séum í samkeppni við hvalinn um fiskinn og að hún sé röksemd fyrir því að það þurfi að veiða hvali, skiptir í raun ekki einu einasta máli vegna þess að ef menn tryðu því að nauðsynlegt væri að veiða hval á þessum forsendum, þ.e. til að hrinda þar úr vegi samkeppnisaðila um nýtingu sjávarfangs, þá værum við auðvitað að tala um meiri háttar styrjöld í sjónum umhverfis landið og það þarf enga smávegis hvalaslátrun til að ná því marki, ef það er þá markmið, að ryðja þessum keppinautum um fiskinn úr vegi.

Herra forseti. Ég held að við ættum að halda okkur við þá nýtingu þessara skepna sem felst í því að skoða þær, þ.e. að fara með fólk út á miðin. Við þurfum raunar ekki að fara langt til þess að skoða hvalina og ekki síst til að sjá hrefnuna að leik. Við þurfum að sýna ábyrgð og gát í þessu máli. Við megum ekki fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Mikið er í húfi, ekki aðeins dýrmætir markaðir fyrir sjávarafurðir okkar og stórkostlegir möguleikar í ferðaþjónustu heldur samstarf við aðrar þjóðir í umhverfismálum og orðstír þjóðarinnar í vísindum og umhverfismálum.