Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 17:55:33 (4547)

1999-03-09 17:55:33# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[17:55]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get satt að segja ekki orða bundist við að hlýða á orð hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur. Hún segir: ,,Það er ekki einkamál okkar Íslendinga hvort við veiðum hval á Íslandsmiðum.`` Það er vægast sagt sérstæð skoðun hjá annars svo glöggum þingmanni (Gripið fram í.) að segja slíkt að það sé ekki einkamál okkar. Er þingmaðurinn þá að segja --- og hér kallar formaður nýrra samtaka fram í --- eru þá þessir vinstri grænu að segja það líka að það sé ekki málefni okkar Íslendinga sjálfra að kveða upp úr með það hvað við megum veiða af þorski á Íslandsmiðum? (SJS: Það er allt annað mál.) Eru það grænir erlendir sem eiga að segja okkur til um það? (SJS: Lestu hafréttarsáttmálann.) Eru það grænir erlendir sem eiga að segja okkur um það, hv. þm.? (SJS: Lestu hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.) (Forseti hringir.) Það þarf ekki að lesa neinn hafréttarsáttmála um það. Það eiga ekki að vera grænir erlendir sem segja okkur til um það. Það er okkar Íslendinga sjálfra að kveða upp úr með það hvernig við nýtum okkar hafsvæði sem við eigum sjálfir og ráðum yfir. Við höfum alla burði til þess. Við eigum eina færustu vísindamenn heimsins sem fjalla um þessi mál og þeim er fyllilega treystandi til þess að fara eftir þeim tillögum sem þeir leggja til. (SJS: Þingmaðurinn veit ekki hvað hann er að tala um.)