Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 17:56:58 (4548)

1999-03-09 17:56:58# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[17:56]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég skildi það svo að hv. þm. væri í andsvari við mig en ekki hv. formann Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs þó að við tilheyrum sömu hreyfingu. Ég sagði það já, að það væri ekki einkamál okkar Íslendinga hvort við veiðum hvali. Og hvers vegna sagði ég það? Því miður er ég ekki með alþjóðahafréttarsáttmálann fyrir framan mig og man ekki einu sinni númerið á greininni sem fjallar um þetta. En um hvali gegnir öðru máli en fiskstofnana. Það stendur í alþjóðahafréttarsáttmálanum að það beri að hafa alþjóðlegt samráð um hvalveiðar. Það ætti hv. þm. að muna vegna þess að ég held að hann hafi fylgst með sjávarútvegsmálum um langan aldur. Ég held að hann hljóti að vera mér sammála um að það var hið besta mál þegar við fengum þann sáttmála samþykktan á alþjóðavettvangi. En þá eigum við líka að fara eftir honum eins og aðrar þjóðir.