Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 18:55:30 (4560)

1999-03-09 18:55:30# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[18:55]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fagna því sem fram kom í máli hæstv. starfandi sjútvrh. varðandi viðhorf hans til Alþjóðahvalveiðiráðsins. Mér fannst merkileg sú frásögn hans af andstöðu við þá aðgerð er samþykkt var að Ísland segði sig úr ráðinu.

Ég hef í tvígang flutt tillögu um að við könnuðum endurnýjaða aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu, vorið 1997 og aftur í haust. Í haust flutti ég hana vegna þeirrar tillögu sem hér er til afgreiðslu í dag. Ég taldi nauðsynlegt að samhliða þeirri tillögu ræddum við þann möguleika eða þá nauðsyn að við skoðuðum alvarlega aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu og þá möguleika sem við ættum á veiðum innan ráðsins.

Í ræðu minni áðan kom fram að allt eins mætti líta svo á að 2. mgr. í tillögu sjútvn. miðaði að því að menn vildu aftur verða aðilar að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Þar segir að Alþingi leggi ,,áherslu á óskoraðan fullveldisrétt Íslands við nýtingu hvalastofna á íslensku hafsvæði í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda``.

Nú er það svo að skuldbindingar um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda tengjast Dagskrá 21 þar sem einmitt er vísað til Alþjóðahvalveiðiráðsins sem réttrar svæðisstofnunar. Ég vil því spyrja hæstv. starfandi sjútvrh. hvort ríkisstjórnin, sem ég veit að hefur skoðað þennan texta, lítur svo á að með 2. mgr. sé opnað fyrir að farið verði í alvöru í að skoða endurnýjaða aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu.