Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 21:06:06 (4569)

1999-03-09 21:06:06# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, GMS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[21:06]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Ég hef verið og ég er því fylgjandi að Íslendingar veiði hval. Þrátt fyrir að ég sé þeirrar skoðunar og hafi verið það lengi, þá ætla ég ekki að styðja þá tillögu sem hér er til umfjöllunar núna og ég skal fara yfir í stuttu máli af hverju.

Ég vil fyrst víkja að því hvers vegna ég tel að við eigum ekki að gefa eftir það prinsipp að nýta allar auðlindir sjávar á sjálfbæran hátt. Ég tel að það sé grundvallaratriði að Íslendingar sjálfir taki ákvörðun um hvernig þessar auðlindir í okkar eigin lögsögu eru nýttar og ég tel, eins og ég sagði áðan, að við eigum að nýta allar þessar auðlindir á sjálfbæran hátt. Hins vegar er það nú svo að bæði þessi prinsipp eins og ég kalla það eru brot á samþykktum þessa blessaða Alþjóðahvalveiðiráðs og því skiptir verulegu máli fyrir okkur hvernig við stöndum að þeirri vinnu sem við ætlum að fara í, þ.e. að hefja aftur hvalveiðar. Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst þessi þáltill. sem hér er til umfjöllunar, sem upprunalega var flutt af nokkrum þingmönnum úr Vesturlandskjördæmi og víðar, beri mjög keim af því að kominn sé kosningaskjálfti í menn, að menn séu í einhverju atkvæðasnapi. Ég veit ekki, herra forseti, hvort ég má nota orðið heimskulegur?

(Forseti (ÓE): Það er svona á mörkunum.)

Það er á mörkunum?

(Forseti (ÓE): Já.)

Ef ég mætti þá mundi ég segja að hér væru viðhöfð heimskuleg vinnubrögð, en ég veit að það er á mörkunum að nota þetta orð.

(Forseti (ÓE): Það sleppur.)

Mér finnst samt að þetta séu ekki góð vinnubrögð. Ég er alveg klár á því að meiri hluti þessa þings vill að við hefjum aftur hvalveiðar. Mörg okkar dáumst a.m.k. að þeirri þrautseigju sem fyrirtækið Hvalur í Hvalfirði hefur sýnt og hvað þeir hafa lengi þraukað. En það er synd --- ég hlýt að mega nota það orð? --- það er synd að svo skuli koma hér nokkrir hv. þm. í atkvæðaleit, í skammvinnri atkvæðaleit, og ætla að eyðileggja þá vinnu sem búið er að leggja í þetta mál af nefnd þeirri sem ríkisstjórnin setti í málið. Sú vinna hefur verið unnin mjög náið með ríkisstjórn Íslands. Mér sýnist að með þeirri tillögu sem hér er til umfjöllunar og er reyndar frá meiri hluta sjútvn., sé verið að eyðileggja það sem áunnist hefur í því að fá ríkisstjórn Íslands, stig af stigi, til þess að hefja hvalveiðar. Það má svo sem segja að í till. sé í sjálfu sér ekkert loforð um að menn hefji hvalveiðar, ekki nokkurt einasta loforð þannig að vel getur verið að ábyrg ríkisstjórn vinni þetta síðan áfram eins og ég veit að hæstv. ríkisstjórn hefur núna unnið málið til þessa. Það eigum við eftir að sjá. En við getum líka setið uppi með það að fá mjög óábyrga ríkisstjórn eftir næstu kosningar sem veður í málið, lítt eða illa undirbúið.

Ég ætla að rekja það hvers vegna ég sé því fylgjandi að við veiðum hval þótt ég vilji fara varlega í sakirnar. Ég veit að til langframa hefur óheftur vöxtur hvalastofna áhrif á vöxt fiskstofna. Við vitum að hvalir hér við land éta álíka mikið af fiski og við veiðum sjálf, eða um 1--1,5 millj. tonna af fiski. Og ég veit að starfsmenn Hafrannsóknastofnunar hafa ályktað sem svo að þorskstofninn hér við land verði 10% minni ef hvalastofnar fá að vaxa óhindrað. Við vitum líka að umhverfisverndarsinnar eins og þeir eru kallaðir --- oft finnst mér þessi samtök úti í heim sem kalla sig umhverfisverndunarsinna vera líkari hryðjuverkasamtökum --- beita sér nú gegn ýmsum öðrum veiðum, t.d. veiðum á bræðslufiski. Því getur verið hagstætt fyrir Íslendinga að draga víglínuna og slást um hvalveiðarnar frekar en láta leiða sig af einu stigi yfir á annað. Allt þetta styður að við förum að veiða hval. En mér finnst það sem ég hef rakið hér lýsa svo miklum hagsmunum að það verði að vinna þetta mál vitrænt, ekki að nota það sem upphlaupamál fyrir kosningar eins og ég hef hér úr þessum ræðustól ásakað flutningsmenn um, þ.e. að þetta snúist meira um að snapa sér nokkur atkvæði fyrir kosningar en að vinna íslensku þjóðarbúi það gagn sem ég held að verði af því ef við getum farið að veiða hval án þess að verða ekki neyddir til að hætta því aftur.

Ég hefði viljað sjá að við byrjuðum á að veiða svona 100 hrefnur, ákvæðum það þess vegna hér og nú að byrja á að veiða 100 hrefnur. Ég hefði viljað halda áfram samstarfinu innan NAMMCO og samhliða því vinna að styrkingu NAMMCO, fjölga aðildarþjóðunum að NAMMCO til að sýna öðrum þjóðum, þar með töldum Bandaríkjamönnum, að við eigum aðra kosti.

Í þriðja lagi hefði ég viljað kanna möguleikana á endurinngöngu í Alþjóðahvalveiðiráðið með það fyrir augum að atvinnuveiðar á hval geti hafist innan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Ég geri mér vel grein fyrir því að veiðar á 100 hrefnum verða aldrei atvinnuveiðar svo nokkru nemi en ég held að við viljum öll alvöruatvinnuveiðar á hval, a.m.k. flest okkar. Okkur greinir hins vegar á um vinnuaðferðirnar. Ég ítreka það að mér finnst sárt, miðað við þá vinnu sem búið er að leggja í þetta undanfarin þrjú ár, að sjá að menn ætla að vaða núna áfram eins og hér hefur verið lýst af einum ágætum þingmanni, þ.e. þannig að menn ætli fyrst að boða stríð en svo að afla sér vopna. Það finnst mér ekki vera rétt vinnubrögð.

Það er í sjálfu sér alveg óvíst hvort ríkisstjórnin, hver sem hún verður eftir þessar kosningar eða þær næstu þar á eftir, mun síðan einhvern tímann, gera eitthvað með þetta. En það eitt að Alþingi lýsi því yfir að hefja skuli hvalveiðar hér við land getur kallað yfir okkur ákvæði úr hinum svokölluðu Pelly-lögum, bandarískum lögum sem kveða á um að ef einhver þjóð dregur úr virkni alþjóðlegra ályktana, þá skuli viðskiptaráðherra Bandaríkjanna tilkynna Bandaríkjaforseta að viðkomandi ríki hafi brotið umræddar ályktanir. Það þarf ekki mikið til. Og þá ákveður forsetinn, að mig minnir innan 30 frekar en 60 daga, hvort beita skuli refsiaðgerðum, þ.e. innflutningsbanni á vöru til Bandaríkjanna frá viðkomandi ríki. Miðað við upplýsingar sem lagðar voru fram í hvalveiðinefndinni sem ég starfaði í þá trúi ég ekki að Japanir muni kaupa af okkur kjöt. Kaupmenn í þessari grein segja að vísu í viðtölum að þeir muni kaupa. En ég hef ekki trú á því að þeir muni kaupa kjöt ef við hefjum veiðar en stöndum utan við Alþjóðahvalveiðiráðið.

[21:15]

Þess vegna finnst mér að það sem mestu máli skipti hjá okkur, sem viljum sjá að þetta fari af stað á þann hátt að þetta haldi, að við verðum ekki hrakin til baka. Því að mér finnst það vera háðung og skömm fyrir þjóðina ef við boðum hvalveiðar án þess að komast síðan nokkurn tímann í þær. Þá finnst mér verr af stað farið en heima setið og þess vegna hefði ég talið að mun farsælla væri að byrja á að boða veiðar í vísindaskyni á 100 hrefnum. Við vitum að hvalastofninn í kringum Ísland étur um 2 millj. tonna af fiski. Talið er að hrefnustofninn sem er um 56 þús. dýr éti um helming af því eða milljón tonn. Það er því mikið í húfi fyrir okkur sem fiskveiðiþjóð að halda þeim stofni í skefjum. Ég held að okkur væri vel stætt á því að byrja á að taka 100 hrefnur úr hafinu. Það mundi líka viðhalda þeirri hefð sem hefur verið hér um aldir að veiða hval, og það er kannski stærsta málið í þessu. Það er að viðhalda hefðinni meðan þessi andsnúna bylgja, sem er andsnúin okkur að mörgu leyti, gengur yfir úti í hinum stóra heimi.

Eins og ég sagði áðan eigum við að vinna að því að styrkja NAMMCO og skoða eftir diplómatískum leiðum inngöngu í Alþjóðahvalveiðiráðið. Ég held að þeir þrír punktar sem ég hef verið að boða rúmist illa innan þeirrar tillögu sem hér er til umræðu, þ.e. tillögu frá meiri hluta sjútvn., og það er af þeim ástæðum sem mér finnst ekki rétt að styðja þá tillögu.

Í hvalveiðinefndinni, sem ég hef vitnað hér til, hefur komið fram mjög mikið af upplýsingum um þau vandamál sem við munum standa frammi fyrir þegar við hefjum hvalveiðar. Ég held að engum sé greiði gerður að vaða út í það mál öðruvísi en að menn séu búnir að undirbúa sig mjög vel, og menn séu búnir að láta þjóðina vita á hverju hún á von. Ég hygg að margt af þeim upplýsingum sem þar voru lagðar fram hafi ekki verið gerðar opinberar. Þetta var samt allt unnið mjög náið með ríkisstjórninni. Hún réð ferðinni í því að menn ákváðu að setja ekki inn lokaskýrslur frá þessari nefnd á síðasta ári, þannig að mér finnst afar sérkennilegt og í rauninni hálfgerð uppgjöf í því hjá hæstv. ríkisstjórn ef á að fara að afgreiða málið núna frá Alþingi á þann hátt sem fram kemur í till. meiri hluta sjútvn. Nema þá, og ég verð að segja það bara alveg eins og er, að sá ótti læðist að mér að e.t.v. standi ekkert til að fara að veiða hval. Það sé aðeins verið að stinga snuði, eða hvað við eigum að kalla það, upp í þá sem hæst hafa haft um þetta mál og svo segi menn: Koma tímar og koma ráð, það kemur ný ríkisstjórn og þá hafi hún það alfarið í hendi sér hvort veiðar verði hafnar eða ekki. Ég sé að vísu ekki hvernig menn ætla þá að fara að taka það upp aftur. Mér finnst því að þessi tillaga sé orðin þannig að það sé miklu nær að halda áfram þeirri faglegu vinnu sem unnin var með sjútvrn. og utanrrn. og Hafrannsóknastofnun, að höfðu samráði við þá sem mestra hagsmuna hafa að gæta í landinu, annars vegar að því að hvalveiðar fari af stað og hins vegar að því að markaðsmöguleikar fyrir útflutning á öðrum vörum frá Íslandi verði ekki eyðilagðir. Ég sé ekki að ef þessi tillaga verður samþykkt séu menn að standa þannig að málum að vel sé við unað og því ætla ég ekki að styðja þessa tillögu þótt ég ítreki að ég er því fylgjandi að Íslendingar fari í hvalveiðar þegar aðstæður eru slíkar að menn telji það réttlætanlegt út frá heildarhagsmunum landsins.