Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 21:49:39 (4584)

1999-03-09 21:49:39# 123. lþ. 82.23 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, JHall
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[21:49]

Jónas Hallgrímsson:

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka þeim hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur og Agli Jónssyni fyrir að vekja máls á þessu þarfa málefni, þ.e. jarðgangagerð í heild sinni. Ég er þá ekki aðeins að tala um málið sem þau fluttu hér, þau jarðgöng sem þar var um að ræða og frsm. samgn. hefur síðan lýst hvernig nefndin hefur gert tillögu um breytingar á málinu.

Sá sem hér stendur þurfti að vísu að láta segja sér það þrisvar sinnum, eins og Njáll forðum, að þessi tillaga væri fram komin. Ég er ekki að jafna viti mínu við Njál, en ég var mjög hissa. Kannski af því að ég hef ekki orðið var við mikinn áhuga þingmanna á jarðgangagerð og undanskil þá hæstv. samgrh. í seinni tíð. Það er slæmt að hann skuli ekki vera hér viðstaddur. Þetta á við um Austurland sérstaklega því í hvert skipti sem jarðgöng í þeim landshluta hafa verið til umræðu þá hafa þau ekki verið talin tímabær. Menn hafa ekki getað komið sér saman um þau eða þá að ekki hafa verið til fjármunir. Það eru rökin sem einna helst hafa komið fram í umræðunni.

En víkjum þá kannski ögn aftar í tímann. Mér finnst það nauðsynlegt til að tengja málið. Umræðan um jarðgöng og jarðgangagerð á Austurlandi er ekki ný af nálinni. Skipuð var nefnd af þáv. samgrh., Matthíasi Á. Mathiesen, þar sem Austfirðingar áttu góðan fulltrúa. Hún skilaði tillögum sem var því miður ekki farið eftir. Síðan var önnur jarðganganefnd skipuð af þáv. hæstv. samgrh., Steingrími Sigfússyni. Hún skilaði líka tillögum, góðri skýrslu sem því miður hefur lítið verið farið eftir.

Það hefur farið fram rækileg umræða um þetta mál á Austurlandi, ár eftir ár. Þegar sú umræða hefst þá klingir jafnan við á æðstu stöðum. Því er haldið fram menn séu ósáttir og finni enga niðurstöðu í málinu. Þetta er rangt. Margoft hefur verið reynt að koma því inn í kollinn á ákveðnum mönnum, meira að segja hæstv. ráðherrum en gengið misjafnlega vel, að Austfirðingar væru sammála. Í því sambandi vil ég vísa til samþykktar sem gerð var á fundi á Egilsstöðum. Sá fundur var haldinn 14. október 1994. Mér þykir vænt um að fá þetta tækifæri til að reka nú í eitt skipti fyrir öll heim til föðurhúsanna þau ummæli að Austfirðingar hafi verið ósáttir. Það var aðeins eitt mál fyrir þessum fundi og þar segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Almennur fundur sveitarstjórnarmanna á Austurlandi, haldinn í hótel Valaskjálf á Egilsstöðum föstudaginn 14. október 1994 ályktar eftirfarandi um jarðgangaframkvæmdir í Austurlandsfjórðungi. Fundurinn skorar á þingmenn kjördæmisins og samgrh. að vinna að því að tryggja fjármagn til að framkvæmdir við jarðgöng í fjórðungnum geti hafist, eigi síðar en 1998 í kjölfar verkaloka við núverandi jarðgangaframkvæmdir á Vestfjörðum. Bendir fundurinn í þessu sambandi á nauðsyn þess að viðhalda verkþekkingu sem íslensk verktakafyrirtæki hafa öðlast vegna framkvæmda sem nú eru í gangi eða fyrir skömmu lokið.``

Og síðan kemur rúsínan í pylsuendanum:

,,Við ákvörðun um framkvæmdaröð jarðganga á Austurlandi, skal einkum litið til þess að með jarðgöngum verði rofin vetrareinangrun byggðarlaga í fjórðungnum og stuðlað að atvinnuuppbyggingu.``

Þetta samþykktu allir sveitarstjórnarmenn á þessum fundi, á aukafundi Sambands austfirskra sveitarfélaga, og kom ekkert mótatkvæði við þessari tillögu. Þingmönnum og hæstv. samgrh. þáv. var falið að leggja fram forgangsröð. Þessi samþykkt er mér vitanlega enn í fullu gildi. Ég þekki enga aðra samþykkt en þessa og því er gjörsamlega út í hött að halda því fram fyrr og síðar, að Austfirðingar hafi ekki haldið rétt í taumana á þeim gæðingi sem þarna var riðið. Hann var alls ekki taumskakkur. Við höfum haldið þessu fram allan tímann og gerum það enn.

En viti menn, svo kemur fram í dagsljósið hér tillaga sem ég hef ekkert annað en gott um að segja. Hún vakti málið upp á ný en með allt öðrum áherslum og öðruvísi en við lögðum upp með á sínum tíma. Ég ítreka að ég get ekki verið á móti þeirri tillögu ef meiri hluti er fyrir henni. Ég vil að það komi hér skýrt fram. Menn hafa hins vegar nálgast málið allt öðruvísi en við gerðum á þessum tíma. Mér er ókunnugt um að orðið hafi breyting á þessari afstöðu meðal sveitarstjórnarmanna hjá SSA. Á fundum samtakanna hefur ár eftir ár verið vísað í áðurnefnda tillögu.

Þarna er verið að tala um að stytta vegalengdir. Það er gott og gilt og allt í lagi, þar sem það á við. Ef við erum í standi til að falla frá því að rjúfa einangrun byggðarlaga, eða skapa atvinnu eins og sagði í tillögunni okkar frá því 1994, þá er allt annar flötur kominn upp á málinu og þá ættum við að vinna samkvæmt því. Ég stend ekki hér til að tala á móti því, síður en svo. Mér er nákvæmlega sama hvar byrjað verður að bora á Austurlandi, ef menn dratthalast til að hefja þá vinnu eins og við Austfirðingar höfum ítrekað farið fram á. Þörfin er nefnilega víða. Gera þyrfti göng í gegnum Hlíðarfjöll, á milli Fljótsdalshéraðs og Vopnafjarðar; frá Seyðisfirði, í gegnum Mjóafjörð, til Norðfjarðar; frá Norðfirði til Reyðarfjarðar; frá Reyðarfirði til Fáskrúðsfjarðar og síðan frá Mjóafirði til Héraðs. Af nógu er að taka. Ég geri engan ágreining um hvar byrjað yrði á þessum verkefnum og vil að það komi skýrt fram, ef menn ná um það samstöðu. Þegar menn hins vegar rjúfa frið, þá verða menn líka að vera tilbúnir að fara í stríð. Sem betur fer voru menn ekki tilbúnir að fara í stríð miðað við störf nefndarinnar sem er að skila hér tillögum. En ég trúi varla að þetta verði til þess að flýta fyrir þessum draumi okkar Austfirðinga að fá jarðgöngin. Nú er aftur farið að tala um að forgangsraða og ekki á Austurlandi heldur á landsvísu.

Ég get svo sem sætt mig við það. Mér finnst þetta ekki nógu gott en ég hlýt að verða að sætta mig við það þó ég hafi lengi haft mikinn áhuga á málinu og talað fyrir því á Austurlandi, lengst af fyrir daufum eyrum. Sannleikurinn er nefnilega sá að það er löngu búið að forgangsraða. Ég hafði ekki fyrir því að hafa með mér þingskjöl því til sönnunar en leyfi mér að vitna í leiðara í Austra, ágætu austfirsku blaði, þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Mergurinn málsins er sá að jarðgangaröðin liggur fyrir í þingskjölum frá árinu 1991 með ákvörðun þar um frá árinu 1987. Þetta er svona. Þessi vilji hefur verið staðfestur í vegáætlun fyrir árin 1991--1993 þar sem lagt er til fjármagn vegna rannsóknar á Austfjarðagöngum jafnhliða framkvæmdum við Vestfjarðagöng og aftur í vegáætlun fyrir árin 1993--1996, þar sem Austfjarðagöng eru enn merkt inn sem fjármagn til rannsókna.``

Hvernig geta menn svo sagt að Austfjarðagöng hafi ekkert verið á dagskrá? Hvernig geta menn talað um það úr þessu æðsta púlti þjóðarinnar að þeir séu ekki aðilar að samkomulagi sem gert var hér í hliðarherbergi Alþingis og engu hafi verið þinglýst um að Austfirðingar séu næstir í röðinni? Hvers konar orðbragð er þetta? Þetta er í þingskjölum. Gera menn ekkert með það sem þeir hafa samþykkt? Er akkúrat ekkert gert með það er menn rétta hér upp hendur? Verður ekkert úr því sem framkvæmdarvaldinu er falið að halda áfram með? Spyr sá sem ekki veit. En það er löngu gengið fram af mér og þótt fyrr hefði verið.

Það allra nýjasta í þessari lönguvitleysu, endaleysisvitleysu um jarðgangagerð síðan þörfum göngum fyrir vestan lauk, eins og allir vita, var að verkþekkingunni var nú sem betur fer viðhaldið með Hvalfjarðargöngum, þótt menn skiptust í flokka um þau göng. Þar hefur flest gengið betur en menn þorðu að vona. Þekkingunni er haldið við og aukin með reynslunni af virkjunum, sem betur fer.

[22:00]

En út yfir tekur þó, og ég endurtek að það hefur svo sem löngu gengið fram af manni en það verður seint nóg, greinilega, þegar hæstv. ráðherrar ferðast um í sínum eigin sóknum og jafnvel annarra enn þá, þó einhver breyting kunni nú að verða á því, eins og jólasveinar þó komið sé fram á góu með fullan poka af gjöfum, og það er ekki þornað blekið í vegáætluninni sem verið var að samþykkja þar sem engir peningar voru til jarðganga, heldur ekki í langtímaáætluninni. Nú bjóða þeir sitt á hvað og nú er spurningin hver býður best.

Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega, segi ég aftur og enn. Hvernig er hægt að taka svona menn alvarlega? (Gripið fram í: Það er ekki hægt.) Það er ekki hægt. Það er rétt. Það er ekki nokkur leið.

Á sama tíma er hamast á móti jarðgöngum á Austurlandi sem voru næst í röðinni. Vestfirðingar eiga mikinn heiður og þakkir skildar fyrir sinn skilning á málinu.Við lofuðum þeim stuðningi á sínum tíma. Þeir hafa ekki hlaupist undan merkjum og hafa tilkynnt okkur Austfirðingum meira að segja skriflega, virðulegur forseti, að þeir muni styðja okkur í komandi slag um jarðgangagerð.

Enginn má skilja orð mín svo að ég sé á móti jarðgöngum á milli Eyjafjarðar og Siglufjarðar. Það sæti síst á mér að gera það. Það þarf að ná samkomulagi í þessu máli. Það þarf að ná lendingu í þessu máli sem menn geta verið sáttir við. Ég er fyrir mína parta tilbúinn til þess að ná þeirri sátt en það verður engin sátt ef við Austfirðingar verðum settir til hliðar. Þá er engin sátt. Þá er búið að rjúfa friðinn. Og þá verður stríð.

Ég sá mér til mikillar hrellingar áður en ég kom í þennan ræðustól hér fyrr að nú er farið að hrópa á enn ein jarðgöngin fyrir norðan. Nú er það undir Vaðlaheiði. Hvar skyldu þau lenda í forgangsröðinni?

Ég vona bara og treysti að menn nái lendingu í þessu máli, enda verðum við að gera það. Ég ætla að styðja þessa breytingu samgn. Ég er ákveðinn í því, virðulegur forseti, í trausti þess að það sem sagt hefur verið og það sem gert hefur verið í málinu fram að þessu standi og að skaffaðir verði nægilegir fjármunir til þess að láta verkin tala en ekki haldlaus og handónýt orð.