Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 22:36:40 (4593)

1999-03-09 22:36:40# 123. lþ. 82.23 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[22:36]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að samanburðarfræðin er auðvitað takmörkunum háð. Það verður hins vegar ekkert undan því vikist að nefna þá staðreynd, af því að stundum vill bregða við að menn geri lítið úr þeim erfiðleikum sem voru í þjóðarbúinu 1991--1994 í efnahags- og atvinnulífi, að það eru rétt rúmir 100 milljarðar kr. sem hv. þm. Jón Kristjánsson hefur haft meira milli handanna í sinni fjárln. en forveri hans á síðasta kjörtímabili, og það munar nú heldur betur um minna. Ég reikna með að hv. þm. finni muninn á því hvort hann hafi á fjögurra ára tímabili 100 milljörðum meira milli handanna en minna. Það er talan sem við erum að eiga hér við.

En þrátt fyrir þetta var það þannig á síðasta kjörtímabili að farið var í átaksverkefni á sviði vegagerðar og framlög til vegagerðar voru meiri en markaðir tekjustofnar sögðu til um. Og það var spýtt í, það var svo sannarlega gert.

Á hinn bóginn er ég hjartanlega sammála hv. þm. Jóni Kristjánssyni að úr því sem komið er þýðir auðvitað ekkert að vera að vola það sem liðið er. Við erum búin að þrauka þessi fjögur ár. Nú er það framtíðin sem skiptir máli og það er bjartsýni í hugum fólks og við vonum það besta. Nú er tækifærið til að gera þær breytingar sem þarf í samfélaginu og ég vænti þess og trúi að kjósendur um landið allt, fyrir austan og vestan og sunnan og norðan grípi það tækifæri.