Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 23:05:55 (4599)

1999-03-09 23:05:55# 123. lþ. 82.23 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, ÁE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[23:05]

Ágúst Einarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér er verið að ræða tillögu samgn. um afgreiðslu á till. til þál. Sú tillaga hljóðaði svo:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að hefja nú þegar undirbúning að gerð jarðganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Miðað verði við að framkvæmdir hefjist árið 2003.``

Skýr tillaga. Hins vegar afgreiðir samgn. málið þannig að hún leggur til að tillagan verði samþykkt, tillagan sem ég nefndi, tekur síðan orðrétt upp úr annarri tillögu sem flutt var af hv. þm. Magnúsi Stefánssyni og fleirum um að fela samgrh. að vinna að langtímaáætlun um gerð jarðganga. Það er hvergi í afgreiðslu samgn. vikið að málefnum upphaflegu tillögunnar.

Ég spyr hæstv. forseta hvort hér sé um eðlilega og þinglega meðferð að ræða, hvort ekki hefði þá verið við hæfi að samgn., sem vitaskuld er fær nefnd, hefði flutt sameiginlega tillögu og þá afgreitt efnisatriði í tillögu hv. þm. Magnúsar Stefánssonar og fleiri, hafi sú tillaga ekki verið komin til nefndarinnar, eins og mér skilst að hafi verið.

Ég tel, herra forseti, að um sé að ræða fullkomlega óeðlileg vinnubrögð sem okkur hér í þingsal er boðið upp á, að til umræðu er tillaga sem afgreidd er í nefnd með annarri tillögu og síðan komi þingmenn hér upp og flytji kjördæmaræður um jarðgöng á Austurlandi eða hvar sem er. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð, herra forseti, og þess vegna vil ég spyrja hæstv. forseta hvort hann telji eðlilega að málum staðið í umræðunni og við afgreiðslu þeirra þingskjala sem liggja fyrir.