Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 23:16:20 (4605)

1999-03-09 23:16:20# 123. lþ. 82.23 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, GHelg (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[23:16]

Guðrún Helgadóttir (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn, eftir mjög svo sérkennilegar umræður hér í dag, að lýsa undrun sinni á meðferð mála hér á hinu háa Alþingi. Tillagan sem hér liggur fyrir hefur ekki náð fram að ganga í nefndinni. Það liggur alveg ljóst fyrir. Þegar þannig stendur á að nefndin kýs að búa til aðra tillögu um allt annað efni þá var a.m.k. siður að það væri nefndin sjálf sem bæri fram nýja tillögu á nýju þingskjali. Enn sérkennilegra er að lesa í nál. frá nefndinni vitnað sérstaklega í tillögu frá hv. þm. Magnúsi Stefánssyni. Sú tillaga liggur óafgreidd en er notuð í brtt. á þessari tillögu. Ég spyr nú: Hefði ekki verið eðlilegra, hæstv. forseti, þó ekki sé ég ósammála niðurstöðu forseta, að báðar tillögurnar hefðu verið afgreiddar undir sama hatti, tillaga hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur og Magnúsar Stefánssonar, með nýrri tillögu sem hv. samgn. flytti? Þetta væri hin rétta málsmeðferð.

Eftir að hafa stjórnað þessu þingi í nokkur ár þá leyfi ég mér að þykjast hafa svolítið vit á þessu. Ég held að þessi meðferð máls sé gjörsamlega ný af nálinni og segi dálítið um, hæstv. forseti, hversu lítið eftirlit er með formi þingmála á hinu háa Alþingi. Svona málsmeðferð á auðvitað ekkert að koma inn í þingsal. Svona málsmeðferð á að stöðva einhvers staðar í þinginu áður en þetta kemur fram. Ég held að þingheimur gæti vísað þessu aftur til hv. samgn. og óskað eftir að báðar tillögurnar, hv. þm. Magnúsar Stefánssonar og umrædd tillaga, sem eins og menn segja hér réttilega er einfaldlega um allt annað, verði teknar aftur fyrir í nefndinni og nefndin skili síðan tillögunni sem hér birtist sem brtt. í nál. sem sinni. Þetta gengur ekki, hæstv. forseti.