Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 23:25:23 (4609)

1999-03-09 23:25:23# 123. lþ. 82.23 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[23:25]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér greinilega kominn upp mikill vandi í þinghaldinu. Það vill svo til að sá sem hér talar var næstur á mælendaskrá. Ég hafði hugsað mér að byrja mál mitt á því að gera athugasemdir, hliðstæðar þeim sem hér hafa nú komið fram frá allmörgum hv. þm. undir liðnum ,,um fundarstjórn forseta``. Ég tek undir þær athugasemdir er fram hafa komið. Ég tel ljóst, herra forseti, að hv. samgn. hafi hér lent í ógöngum. Hún hefur raunar keyrt út af og það er náttúrlega ekki gott að sjálf samgn. lendi úti í mýri.

Ég held það sé einboðið til þess að einfalda hér umræður og flýta fyrir þingstörfum að nefndin kalli þetta skjal til baka og leggi efnislega sömu tillgr. fyrir sem sjálfstæða tillögu sína. Það er alveg augljóst mál, herra forseti, og fer mjög illa á því að gera þetta svona. Hv. samgn. verður auðvitað að þola að um störf hennar sé rætt og þau jafnvel gagnrýnd eins og önnur mannanna verk. Það er gert af góðum hug. Þegar málið er skoðað, þá er ekki hægt að mæla á móti því að afgreiðsla málsins er óeðlileg. Það jaðrar við að hægt sé að segja að hún sé óþingleg. Það er misvísandi að kalla þetta afgreiðslu á tillögu sem er um allt annað mál. Hér var meira að segja gengið svo langt í umræðum að lesa upp umsagnir um tillögu sem fjallar um allt annað en það sem nú á að fara að samþykkja hér samkvæmt þessari tillgr.

Það neyðarlega er, herra forseti, að tillagan, skv. brtt. samgn., er miklu líkari tillögu Magnúsar Stefánssonar og fleiri og er miklu nær því að vera efnislega skyld henni. Þar er þó verið að leggja til vinnu að langtímaáætlun í jarðgangagerð. (Gripið fram í: Hún er orðrétt.) Hún er að einhverju leyti orðrétt. Í hinu tilvikinu er um afmarkaðan hlut að ræða, könnun á jarðgangagerð á einum tilteknum stað, milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Hér er um tvennt ólíkt að ræða. Ég held, herra forseti, í allri hreinskilni og vinsemd sagt að ekki sé á bætandi, þann farsa sem jarðgangamál hafa verið að verða upp á síðkastið. Ég held að stjórnarliðið ætti að hugsa sinn gang, eins og það bögglauppboð hefur gengið fyrir sig með hæstv. samgrh. í broddi fylkingar. Má ég í mestu vinsemd biðja um að þetta verði ekki gert ruglingslegra en orðið er og stinga upp á að málinu verði frestað, samgn. komi saman í fyrramálið og leysi það þannig að samstaða geti orðið um það. Ég sé ekki að það geti gert annað en greiða fyrir málinu.